133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:02]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er náttúrlega ekki boðlegt í umræðu af þessu tagi að hv. þm. Jón Bjarnason tali um efnahagslegan stöðugleika og tillögur Vinstri grænna í þeim efnum á sama tíma og forustumenn Vinstri grænna, til að mynda Þuríður Backman, tala fyrir því að fyllingu Hálslóns verði frestað, sem mun kosta tugi milljóna kr. Meira að segja hefur hv. formaður Vinstri grænna gengið svo langt að segja að þessi virkjun eigi að standa sem merki um heimsku þeirra manna sem að henni stóðu. Hún talar þá væntanlega um okkur alþingismenn og færustu verkfræðinga landsins. Það er nefnilega þannig með Vinstri græna að þeir geta sett sig í dómarasæti og fellt dóma yfir hinum og þessum einstaklingum en síðan er það nú þannig að ef orði er hallað á þá verða þeir mjög sárir og viðkvæmir.

Ég krefst þess í þessari umræðu að Vinstri grænir komi þá með tillögur um hvar menn ættu að skera niður í 300 milljarða kr. stofnkostnaði vegna hugmynda þeirra um að láta framkvæmdina standa sem vitni um heimsku manna. Þetta eru t.d. framlög til Háskóla Íslands í 50 ár eða framlög til Landspítala – háskólasjúkrahúss í tíu ár. Ætla hv. þingmenn að stórhækka skatta, ætla hv. þingmenn að skera niður í velferðar-, mennta- og heilbrigðismálum eða ætla hv. þingmenn Vinstri grænna kannski að keyra ríkissjóð í þrot? Ætla menn að keyra ríkissjóð sem er nærri því skuldlaus í dag í botnlausan skuldahala í þessum efnum? Það væri svo sem eftir þeim. En það er alveg ljóst að í umræðunni sem fram undan er þurfa Vinstri grænir að sýna það með raunverulegum hætti hvernig þeir ætla að standa vörð um stöðugleikann í íslensku efnahagslífi með hliðsjón af þessari hugmynd, sem er fáránleg hugmynd Vinstri grænna um að Kárahnjúkavirkjun eigi að standa (Forseti hringir.) og það verði ekki hleypt á lónið. Það er fáránleg hugmynd.