133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:04]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sannfærir mig nú enn meir um það að það þurfi að setja höft og haft á stóriðjustefnu og virkjanastefnu Framsóknarflokksins, því að hver er einmitt efnahagsvandinn í dag? Er þingmaðurinn sáttur við á þriðja hundrað milljarða kr. halla á þjóðarbúinu sem að meginþorra stafar af stóriðjustefnu og afleiddum afleiðingum hennar? Er hann sáttur við það? Allir aðilar segja, það stendur meira að segja í fjárlagafrumvarpinu að verði ráðist í eða gefin fyrirheit um frekari stóriðjuframkvæmdir á næstu árum muni ekkert af þeim markmiðum sem þarna eru sett í fjárlagafrumvarpinu nást. Við munum sitja áfram uppi með gríðarlegan viðskiptahalla, þenslu, háa vexti. Heldur hv. þingmaður að unga fólkið sem nú er að taka námslánin sín, sem nú er að taka yfirdráttarlánin eða fyrirframlánin hjá bönkunum upp í námslánin, heldur hann að þetta unga fólk sé hrifið af því að verða að borga kannski milli 15 og 20% vexti bara til þess að borga fyrir stóriðjustefnu Framsóknarflokksins, (Gripið fram í: Þetta er rangt.) bara til þess að borga fyrir þensluna sem stafar af stóriðjustefnu Framsóknarflokksins og sem ekkert lát virðist vera á? Álver á Húsavík, álver í Straumsvík, álver í Helguvík, stækkun álversins í Straumsvík, virkjanir tilheyrandi.

Hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins fór eins og landafjandi um allt til þess að skrifa undir viljayfirlýsingar og samkomulag, meira að segja út til New York, um fleiri og fleiri álver sem stendur þó hér skýrt að verði ráðist í fleiri álver muni ekki takast að koma efnahagslífinu hér aftur í jafnvægi.