133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:06]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nokkrar alvarlegar villur í ræðu hv. þingmanns sem ég vil gera athugasemdir við. Hann sagði að aukinn launamunur væri skynvilla. Hvar er aukinn launamunur að koma fram í þjóðfélaginu? Hann er fyrst og fremst að koma fram í dag, t.d. í hinni stóru nýju atvinnugrein sem heitir bankastarfsemi. Hvernig stendur á því? Það stendur þannig á því að bankarnir sem eru í alþjóðlegri samkeppni og alþjóðlegu umhverfi eru að borga fyrir menntun, þeir eru að borga fyrir mjög hátt menntunarstig starfsmanna sinna. Það er fullyrt við mig að menntunarstig starfsmanna í íslenskum bönkum í dag sé mjög svipað og hjá kennurum við háskólana. Það er þetta sem er verið að borga fyrir. Þetta er nútímaþjóðfélagið sem gengur fram og er að skila Íslandi gríðarlegum tekjum og gera okkur kleift að hjálpa okkar minnstu bræðrum. Það er ekki skynvilla heldur rökrétt framhald þess menntunarstigs sem þetta þjóðfélag er að ná.

Það er líka mjög rangt hjá hv. þingmanni að halda því fram að ruðningsáhrif vegna Kárahnjúkavirkjunar séu að setja efnahagslífið á hvolf. Það liggur fyrir að innlendur virðisauki af Kárahnjúkum og álverinu í Reyðarfirði er í kringum 70 milljarðar. Á sama tíma frá því að þessar framkvæmdir hófust hefur nettóinnstreymi erlendra lána til Íslands verið 700 milljarðar. Hvort halda menn nú að ruðningsáhrifin séu vegna innstreymis peninganna eða vegna virðisaukans af framkvæmdunum fyrir austan? Menn geta giskað á það einu sinni.

Ég vil líka minna á það að það hefur aldrei verið til siðs núna í tíu ár eða fimmtán ár, eða sautján ár, að setja inn í þjóðhagsspá væntanlegar eða kannski ímyndaðar eða hugsanlegar álversframkvæmdir. Það var gert síðast haustið 1989 í síðustu vinstri stjórn sem sat hér þá, fyrir árið 1990. Þá var gert ráð fyrir því (Forseti hringir.) í þjóðhagsáætlun að byggt yrði álver á Keilisnesi (Forseti hringir.) og rafmagnið flutt með hundi frá Eyjabökkum.