133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:08]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að banka- og fjármálastarfsemi í landinu skilar víða góðum virðisauka, t.d. erlendis, og þessi atvinnustarfsemi er vanmetin meira að segja af stjórnvöldum vegna þess að stjórnvöld leggja miklu meiri áherslu á álversframkvæmdir eins og forustumenn hafa einmitt vitnað til.

Það réttlætir hins vegar ekki að það eigi að vera svo ört vaxandi hlutfallslegur munur innan samfélags okkar hvað varðar tekjur og lífskjör. Þar koma einmitt skyldur samfélagsins til, skyldur ríkisins, þannig að við, þessi væntanlega ríka þjóð sem við erum um margt, getum þá tekið meira af þeim sem hafa svo háar tekjur, að þeir leggi meira til samneyslunnar þannig að allir meðborgarar okkar geti haft góð lífskjör.

Þess vegna er þessi stefna Sjálfstæðisflokksins röng, að vilja auka á muninn með því að létta sköttum af hátekjufólki sem væri kannski einnig reiðubúið til þess að leggja sitt til samneyslunnar af sínum burðum því enginn veit hvenær hann fær síðan að njóta styrks samneyslunnar. Við höfum líka lagt til að þeir sem hafa hæstar fjármagnstekjurnar greiði meira til ríkisins hlutfallslega eins og um laun væri að ræða. Það eru því ýmsar leiðir til að koma til móts við og framkvæma jöfnuð í samfélaginu, frú forseti.