133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:45]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það hefur farið fram þó nokkur umræða um fjárlögin í morgun sem hefur að mörgu leyti verið skemmtileg. Við 1. umr. um fjárlög hvers árs verður eins og oftast fjallað um meginlínur og dregnir fram átakapunktar og menn skemmta sér í andsvörum og slíku eftir að fjármálaráðherra hefur kynnt málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Við þingmenn Frjálslynda flokksins höfum furðað okkur á ýmsum verkum og ákvörðunum ríkisstjórnarinnar og er rétt að víkja að því áður en lengra er haldið. Við vorum undrandi á því í lok júní sl. þegar fyrirvaralaust var sett stopp á útboð verklegra framkvæmda á vegum ríkisins. Þetta var gert á einum fundi hjá ríkisstjórninni án þess að lagt væri mat á það hver nauðsyn væri til þess að vinna þau verk sem voru að smella inn í það ferli að vera tilbúin í útboð sem fyrst.

Einkum urðu tvö landsvæði bitbein þessara ákvarðana, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi, þ.e. Vestfirðir og norðausturhornið, þar sem finna má enn mest af gömlu malarvegunum, vegum sem aldrei voru byggðir til að bera þá þungaflutninga og umferð sem nú er. Allir sem búa á þessum landsvæðum sem og aðrir landsmenn sem um þessa vegi fara undruðust þessa sérstæðu ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Íbúarnir skildu heldur ekki rökin um að þetta væri nauðsynlegt til að bregðast við þenslu í efnahagslífinu sem enginn hafði orðið var við á þessum landsvæðum, Vestfjörðum og norðausturhorninu.

Hæstv. forseti. Enga hagspeki og haldbær rök hef ég heyrt um að þessi séraðgerð, sem einkum bitnaði á íbúum áðurnefndra landsvæða, mundi draga úr þenslu, enda allt áfram á fullri ferð í byggingum og verklegum framkvæmdum á Reykjavíkursvæðinu og Miðausturlandi, þar sem þenslunnar hefur jú orðið vart, en þar er unnið áfram á fullum afköstum að því er séð verður og ekkert stopp í verkum. Okkur nægir að horfa á Austurhöfnina í Reykjavík þar sem allt er á fullu við undirbúning þeirrar framkvæmdar, byggingu stórhýsa í Reykjavík þar sem allt er á fullri ferð, gatnagerð í nýjum hverfum þar sem byggðar verða nokkur hundruð og jafnvel þúsundir íbúða á komandi árum og fleiri framkvæmdir mætti nefna. Þetta á sér stað á þeim svæðum þar sem þenslan er til staðar og var vissulega merkjanleg. Það voru því eðlileg viðbrögð við þessum vanhugsuðu aðgerðum gegn þenslu að fólkið sem býr á fólksfækkunarsvæðum, þar sem enginn vissi af þenslu, yrði sárt og reitt. Íbúar og íbúasamtök mótmæltu gerræðinu og skilningsleysi ráðherranna á mismunandi högum landsmanna.

Í fyrrakvöld lýsti síðan hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde yfir því að „90 daga Haarde-áætluninni“ — sem ég hef kallað svo — um viðbrögð við þenslu væri lokið með markverðum árangri að mati ríkisstjórnarinnar. Ef ég tók rétt eftir vék hv. þm. og formaður fjárlaganefndar, Birkir J. Jónsson, einnig að því í ræðu sinni hér að þessi 90 daga áætlun hefði náð markverðum árangri. Þetta eru náttúrlega stórmerk tíðindi fyrir hagfræðinga heimsins sem íslenskir fræðimenn í hagspeki hljóta að kynna á alþjóðavettvangi sem allra fyrst, hvernig þetta 90 daga verkbann á vegaframkvæmdir, þar sem þörfin var og er mest á að komast upp úr drullunni, virkaði að mati ráðherranna. En að mínu viti er þetta einhver furðulegasta og gagnlausasta aðgerð sem nokkur ríkisstjórn hefur framkvæmt, að beina aðgerðunum að þeim svæðum þar sem þörfin fyrir vegaframkvæmdir er hvað mest. Því þar þarf virkilega að gera átak og var engin ástæða til þess að setja þessa frestun á verkefni á Vestfjörðum annars vegar og norðurausturhorni landsins hins vegar.

Ég segi því enn og aftur „Guð láti gott á vita“ að forustumenn í ríkisstjórn landsins skuli hafa áttað sig á að ekki væri ástæða til að halda þessum aðgerðum áfram að því er varðar verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins sem eru auðvitað að langstærstum hluta í samgöngumálum. Við höfum hins vegar horft á það með nokkurri furðu, landsbyggðarþingmenn og landsbyggðarfólk, að þessar aðgerðir hafa ekki verið sýnilegar hvað það varðar að draga úr framkvæmdum á Stór-Reykjavíkursvæðinu, á því svæði sem flestir landsmenn fara um oftar en einu sinni á ári þótt þeir búi þar ekki. Ég hef oft verið spurður að því hvar væri búið að draga úr framkvæmdum þar en hef ekki getað svarað því

Hæstv. forseti. Það fer ekki á milli mála að samgöngubætur er eitthvað það arðsamasta sem við getum aðhafst í verklegum framkvæmdum fyrir íslenska þjóð. Því er það afar misráðið þegar menn taka sér fyrir hendur það sem gert var í sumar og einkum þegar það beinist að svæðum þar sem aðgerðin getur ekki haft nein sérstök áhrif til að draga úr þenslu en bitnar harkalega á þeim viðhorfum fólks sem býr á þessum svæðum að það eigi rétt á betri samgöngum, sem það vissulega á. Þess vegna voru margir sárir og reiðir yfir þessari niðurstöðu ríkisstjórnarinnar.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir, hæstv. forseti, að hæstv. fjármálaráðherra hafi m.a. nefnt í ræðu sinni áðan þegar hann vék að þessum framkvæmdum sem lentu í frestun að sumum yrði frestað til ársins 2008. Hann nefndi, held ég, 200 milljónir annars vegar í Arnkötludal og 200 milljónir á norðausturhorni landsins hins vegar. Ég hefði frekar talið ástæðu til að gefa í en að hægja á og reyna að vinna upp skaðann af þessari tilteknu frestun. Ætla ég ekki að hafa fleiri orð um það í bili.

Hæstv. forseti. Þær miklu tekjur sem ríkissjóður hefur fengið vegna mikils viðskiptahalla sem fylgir miklum innflutningi er ekki grunnur sem hægt er að byggja á um langa framtíð. Þetta eru óvissar tekjur. Þegar dregur úr innflutningi, t.d. á bílum, hefur það mikil áhrif á tekjur ríkissjóðs. Hægi fólk á í eyðslu sinni lækka tekjur ríkissjóðs. Þetta hvort tveggja er að gerast. Einnig hefur verð á stærri húseignum lækkað og lánsfé er dýrt. Þessi viðbrögð eru auðvitað merki þess að draga sé úr þenslu á Reykjavíkursvæðinu og landinu öllu að þessu leyti til en ekki sérstaklega sú 90 daga frestun sem ég gerði að umræðuefni í upphafi máls míns.

Yfirtaka okkar á varnar- og öryggismálum mun kalla á ný fjárútlát úr ríkissjóði. Undan því verður ekki vikist. Yfirtakan á Keflavíkurflugvelli og að tryggja alþjóðaflugvöll og þjónusta hann mun líka kalla á auknar greiðslur úr ríkissjóði. Ratsjárstöðvarnar sem eru nauðsynlegar, m.a. vegna flugöryggis, verða líka reknar af fjárlögum þó svo að okkur takist ef til vill síðar að fá aðrar NATO-þjóðir til að taka þátt í hluta rekstrarkostnaðar.

Ríkisstjórnin hefur lagt lagt fram tillögur í fjárlagafrumvarpinu sem eiga að fylgja eftir samkomulagi ríkisstjórnarinnar við eldri borgara. Ef svo vel skyldi vilja til að tillögur okkar í stjórnarandstöðunni um bætt lífeyriskjör aldraðra og öryrkja gangi fram munu þær einnig auka útgjöld ríkissjóðs. Við teljum hins vegar nauðsynlegt að taka betur á en ríkisstjórnin hefur lagt upp með í þeim málaflokki og að það verði gert strax á árinu 2007. Ríkisstjórnin var í raun og veru neydd til þess af eldri borgurum að koma með slíkar tillögur og einnig að fylgja eftir þeim tillögum sem ASÍ knúði fram.

Einnig þarf að taka tillit til þess að hagnaði af sölu eigna eins og Símans verður ekki ráðstafað nema einu sinni. Þegar horft er til þeirrar spár að ríkissjóður verði rekinn með miklu minni tekjuafgangi á árunum 2008 og 2009, sem þýðir í raun samkvæmt reynslu hallarekstur ríkissjóðs miðað við uppgjör, þá er alls ekki að óathuguðu máli hægt að halda áfram á vegferð ríkisstjórnarinnar með skattalækkanir sem gagnast fyrst og fremst þeim sem hafa hæstu launin.

Það er því nauðsynlegt að skoða málin með tilliti til framhaldsins hvað varðar tekjuöflun ríkissjóðs og hvort sú skattastefna sem ríkisstjórnin vill fylgja eftir getur gengið upp til framtíðar. Ég hef margsagt úr þessum ræðustól að sé svigrúm til skattalækkana eigi að sjálfsögðu að útfæra þær þannig að þær gagnist fyrst og fremst því fólki sem hefur lægstu tekjurnar. Það er skoðun okkar í Frjálslynda flokknum, og við höfum ekki breytt um afstöðu þar alveg frá því við settum fram hugmyndir okkar varðandi skattalækkanir á árinu 2003, að miklu frekar hefði átt að fara þá leið að hækka persónuafsláttinn meira sem hefði gagnast lágtekjufólkinu best. ASÍ hefur nú knúið þá stefnu fram að 1% af fyrirhugaðri skattalækkun, flatri skattalækkun ríkisstjórnarinnar um næstu áramót, var breytt yfir í persónuafslátt. Ég fagna því að menn skuli hafa farið að hluta til þá leið sem ég tel að bæti og jafni kjörin í landinu. Mér finnst það eðlilegt markmið þegar horft er til þess að lagfæra í tekjuskattskerfinu.

Varðandi vegamálin í heild sinni held ég að rétt sé að koma því að í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, að að ríkisstjórnin hefur iðulega á undanförnum árum bætt í í vegaframkvæmdum og fjárveitingum á kosningaári. Þetta sést vel þegar skoðuð er tafla yfir það hvernig fjárveitingar til fjárfestinga í samgöngubótum í vegakerfinu hafa legið í nokkur ár. Ef við skoðum þetta t.d. frá árinu 2001 sést að það hefur verið gefið í á árinu 2003 þegar rúmir 8,4 milljarðar voru settir í fjárfestingar til vega. Það var síðan dregið úr á seinni hluta þessa kjörtímabils niður í 6,7 milljarða árið 2005 og í 5,9 milljarða í fjárlögum ársins 2006 en síðan kom aukaaðgerð þar sem þetta var dregið niður í 4,85 milljarða. Það á hins vegar að gefa í á næsta ári og setja 10,4 milljarða í fjárfestingar í vegum.

Því ber auðvitað að fagna ef menn takast á við það mikla verkefni að lagfæra vegakerfið hér á landi. Við höfum lýst skoðunum okkar á því í Frjálslynda flokknum hvernig við teldum að takast ætti á við það að koma þjóðvegunum öllum í viðunandi horf, m.a. með aukinni áherslu á jarðgöng og þverun fjarða til að stytta leiðir. Það er hins vegar ekki mjög góður svipur á því þegar verið er að breyta framkvæmdaröð með þeim hætti sem ég hef vitnað til í fyrrnefndum tölum. Og þegar því er haldið fram að við séum að verja hlutfallslega miklu meira af ríkisútgjöldum í samgöngur en áður þá er hægt að fara með tölur um það líka. Það voru 4,4% á árinu 2003 en fór niður í 1,9% á árinu 2006 og fer síðan aftur upp í 2,9% á árinu 2007 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Því er hins vegar öðruvísi farið ef skoðaðar eru fjárveitingar til utanríkismála og utanríkisþjónustunnar. Þar er stöðug aukning á fjármunum eða frá því að vera 5,7 milljarðar á verðlagi ársins 2005 árið 2001 og upp í að vera 9,4 milljarðar á næsta ári og aukningin er frá 2,2% og upp í 2,6%. Þar er greinilega verið að gefa í og við höfum svo sem fært fram athugasemdir við það. Tími minn er búinn, hæstv. forseti.