133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:17]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur svo sem verið komið ágætlega inn á þátt samgöngumála í aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú fyrr í sumar sem átti að vera skilaboð um það að við viljum ná stjórn á efnahagsmálum og stöðugleikanum hér í samfélaginu. Það hefur komið í ljós að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa borið árangur. Það voru fleiri ákvarðanir sem teknar voru, m.a. gagnvart Íbúðalánasjóði, um lækkun á hámarksláni og lánshlutfalli, þannig að það voru margþættar ákvarðanir sem ríkisstjórnin tók í sumar. Því miður brást stjórnarandstaðan þá hart við þeirri viðleitni ríkisstjórnarinnar að slá á þenslu í samfélaginu, að lækka verðbólguna. Stjórnarandstaðan fór ekki í þá vegferð með ríkisstjórninni en nú eru ýmis merki þess að við séum að ná tökum á verðbólgunni enn á ný. Við munum halda áfram í aðhaldi. Í fjárlögum ársins 2007 er gert ráð fyrir 11 milljarða kr. aðhaldi í fjárfestingum. Ég hef ekki trú á því að stjórnarandstaðan fylgi ríkisstjórninni í þeim efnum enda eru það trúlega misvinsælar ákvarðanir sem ríkisstjórnin er að taka í þeim efnum.

En aðalatriðið er að ríkisstjórnin vill standa vörð um stöðugleikann og því miður hefur stjórnarandstaðan ekki komið með trúverðugar ábendingar eða tillögur í þeim efnum að slá á verðbólguna. Ég vil beina því til hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar og stjórnarandstöðunnar, þar sem samhent stjórnarandstaða boðaði að hún mundi standa sameiginlega að mörgum málum í haust, að hún standi sameiginlega að tillögugerð fyrir fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007, ekki eins og við síðustu fjárlög þar sem tillögurnar voru út og suður. Vinstri grænir vildu stórefla útgjöld ríkissjóðs og Samfylkingin kom með merkingarlausar tillögur. Ekki meira í bili.