133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:23]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leggja mat á það hvort Birkir Jón Jónsson er að keyra til hægri eða vinstri að því er hann álítur varðandi verk ríkisstjórnarinnar. Hitt veit ég að samtök aldraðra, samtök öryrkja og samtök launamanna hafa knúið ríkisstjórna til að breyta stefnu sinni. Það hefur verið gert með ýmsum aðferðum, viðræðum, sameiginlegu nefndarstarfi, beinum aðgerðum, hótunum og málaferlum. Sem betur fer hafa þessi samtök náð einhverjum árangri að sveigja ríkisstjórnina af sinni alhörðustu stefnu. Það breytir ekki því að mikið verk þarf að vinna. Það er þess vegna sem við í stjórnarandstöðunni höfum lagt í sameiginlegan málatilbúnað varðandi velferðarmálin og að sjálfsögðu munum við skoða fjárveitingar til þess málaflokks.