133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:51]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Undarlegur maður hv. þm. Jón Bjarnason. Ég er búinn að segja honum hér þrisvar sinnum að þetta séu ósannindi. Ég hef vitnisburð allra um að þetta hefur ekki tafið vegagerð á Vestfjörðum um eina mínútu. Samt heldur hann áfram eins og það komi honum ekkert við og ítrekar aftur sömu ósannindin.

Varðandi viðskiptahallann þá hefur enginn, að ég ætla, rætt hann af meiri hreinskilni hér á Alþingi á undanförnum árum en ég. Ég hef varað við að búa til kaupmátt á Íslandi. Kaupmátt með hækkun gengisins, kaupmátt sem ætti sér ekki forsendur í iðnmætti Íslands. Það væri rangur kaupmáttur. Það yrði enginn fyrir því annar en launþeginn. Ég hef farið yfir það árum saman þannig að hv. þingmaður veit alveg um afstöðu mína til þess.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti. Það hefur ekki verið gert í 20 ár bráðum, eða 18, að setja inn í þjóðhagsáætlanir samninga sem ekki er búið að gera. Það er bara ekki gert. 1989 var beitt pólitískum þrýstingi á Þjóðhagsstofnun og hún knúin til að setja inn í áætlunina fyrir árið 1990 álver á Keilisnesi. Það var rifjað hér upp í fyrradag svona mönnum til skemmtunar hver það var sem var samgönguráðherra í þeirri ágætu vinstri stjórn sem þá sat.

Og hvað varð nú um þetta, væntingarnar varðandi Keilisnes? Það reyndist bara vera bull og vitleysa þó að menn vildu nú gjarnan taka einhvern hund að austan, hund frá Eyjabökkum sem átti að leiða rafmagnið að austan yfir á Reykjanes til að byggja þar álver. (Forseti hringir.) Það eru allir búnir að gleyma þessu. Það er rétt að rifja það upp.