133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:01]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Það styttist til jóla og við alþingismenn erum þar af leiðandi komnir til byggða og teknir til við okkar árlegu yfirferð yfir stöðu efnahagsmála í upphafi þings.

Við höfum fengið í hendur fyrstu bókina í jólabókaflóðinu í ár. Fyrsta bókin í jólabókaflóðinu í ár er framtíðarskáldsaga eftir Árna M. Mathiesen, ungan Hafnfirðing, sem kallar verkið Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007 eða Kosningafjárlög.

Skáldsaga segi ég og til þess eru ærnar ástæður að kalla þetta verk skáldsögu. Við höfum fyrir því mikla reynslu að fjárlög sem þessi ríkisstjórn leggur fram er lítt að marka. Frávik þeirra fjárlaga eru mjög mikil. En þó eru ein fjárlög sem jafnan eru verri en önnur í þessum efnum og það eru kosningafjárlög eins og þessi. Því þar er sem aldrei fyrr reynt að draga upp glansmynd af veruleikanum en niðurstaðan sem við blasir að ári er oft og tíðum allt önnur. Það er enn þá verra þegar ekki er einvörðungu um kosningabækling að ræða eins og vant er heldur beinlínis prófkjörsbækling, eða svo virðist að minnsta kosti af því hvernig hann hefur verið kynntur í baráttu hæstv. fjármálaráðherra í sínu kjördæmi fyrir endurkjöri til Alþingis.

Það er margt í þessu frumvarpi sem ástæða er til að gera athugasemdir við en við höfum í þessari fyrstu umræðu aðeins tíma og tök á að takast á við aðalatriðið.

Kosningafjárlögin árið 2007, sem hér eru lögð fram, staðfesta að við munum á Íslandi áfram búa við mikla verðbólgu. Við munum áfram búa við mikla vexti, viðskiptahalla og skuldasöfnun og mestu skattpíningu á millitekju- og lágtekjufólk sem við höfum séð í áratugi. Þegar hæstv. fjármálaráðherra segir okkur hér að skattheimtan sé að lækka frá árinu í fyrra þá er ástæðan fyrir því mjög einföld. Ástæðan fyrir því er mjög einföld vegna þess að skattheimtan á síðasta ári var meiri en við höfum séð í áratugi. Ekki aðeins sem krónutala vegna þess að landsframleiðslan hafi verið að vaxa mikið heldur líka sem hlutfall af landsframleiðslunni. Við vitum hvernig þessari skattbyrði hefur verið skipt vegna þess á meðan að menn hafa verið að auka gjöld þau sem ríkið tekur, ýmis aukagjöld og aukaskatta og tekjur af þeim, eins og stimpilgjöldin, eins og þjónustugjöldin, eins og gjöldin í heilbrigðiskerfinu, eins og skólagjöldin, þá hafa menn verið að lækka á hina sem hafa hærri tekjurnar og þannig bæði aukið skattheimtuna og fært byrðarnar yfir á millitekjufólkið og lágtekjufólkið.

Við sjáum hins vegar sem betur fer í þessu frumvarpi að það er aðeins verið að skila til baka af því sem tekið hefur verið. Það er aðeins verið, vegna kröfu verkalýðshreyfingarinnar og vegna þeirra samninga sem gerðir voru, að skila aftur af því sem menn hafa verið að leggja í skatta á lág- og meðaltekjufólk í landinu. En það dugir hvergi nærri til að vega upp það sem á fjölskyldurnar hefur verið lagt.

En það sem fyrst og fremst er á fjölskyldurnar lagt er verðbólgan og það er vaxtastigið sem leiðir af óstjórn ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum. Hér segir hv. varaformaður fjárlaganefndar, Einar Oddur Kristjánsson: „Já, en við jukum kaupmáttinn um 5% í ár.“ (EOK: 5,7%.) Nú er það í fyrsta lagi þannig að kaupmáttaraukning er ekki íslenskt einsdæmi en 5,7% kaupmáttaraukning, það er býsna vel af sér vikið. Þá verða hv. þingmenn líka að muna að verðbólgan á árinu er 7,5%. (Gripið fram í.) Ætli það láti ekki nærri að skuldir heimilanna í landinu hækki um fast að 15% á árinu.

Hverjir koma þá illa út úr því? Það er augljóslega millitekjufólkið og láglaunafólkið sem skuldar. Kaupmáttaraukningin dugar ekki til þess að borga reikninginn fyrir óstjórninni, reikninginn fyrir verðbólgunni, reikninginn fyrir vaxtastiginu. Það er ótrúlegt, verandi með heimsmet í vöxtum og mestu verðbólgu í Evrópu, að stjórnarliðar skuli ganga í ræðustólinn svo fullir af sjálfhælni að með ólíkindum er. Þeir virðast engin vandamál sjá í efnahagsstjórninni. Þeir virðast ekki sjá neina verðbólgu í landinu. Þeir virðast ekki sjá neina vexti í landinu. Þeir virðast ekki sjá neitt af þeim kjörum sem fólkið hér fyrir utan þetta hús er að eiga við. Það er skýrasta ástæðan fyrir því, virðulegur forseti, að við þurfum að skipta um ríkisstjórn í landinu. Sú ríkisstjórn sem hér situr er hætt að deila kjörum með fólkinu í landinu.

Þegar fólkið í landinu hefur áhyggjur af því að að húsnæðislán þess séu að hækka vegna verðbólgunnar og vegna vaxtastigsins, þegar fólkið í landinu hefur áhyggjur af sköttunum sínum og af öllum þeim gjöldum sem ríkissjóður er að taka af venjulegu millitekjufólki og lágtekjufólki, í heilbrigðiskerfinu, í skólakerfinu, í stimpilgjaldasköttunum og hvað nú öll þessi gjöld ríkisstjórnarinnar heita, eru þingmenn stjórnarliðsins uppteknir við það hér á Alþingi að hæla hver öðrum fyrir að hafa algerlega misst tökin, bæði á verðbólgunni og á vöxtunum.

Þetta, virðulegur forseti, þarf svo sem ekki að koma á óvart. Við höfum séð þessa sjálfhælni í umræðum um fjárlög ár eftir ár allt þetta kjörtímabil. Það hefur verið vandamál út af fyrir sig að ríkisstjórnin virðist einfaldlega ekki taka það alvarlega. Hún virðist ekki taka það alvarlega að í landinu sé 7,5% verðbólga. Hún kallar það mjúka lendingu þegar skuldir heimilanna í landinu hækka um 10% á einu ári vegna óðaverðbólgu. Hún telur sig nokkuð góða og geta státað sig af ástandi mála þegar vextir á yfirdráttarheimildum landsmanna eru komnir yfir 20%.

Ríkisstjórnin stendur í þessum sal og hún sér engar skuldir því ríkissjóður er skuldlaus. En hér fyrir utan þetta hús eru sveitarfélög skuldum hlaðin. Hér fyrir utan þetta hús eru heimili í landinu skuldum hlaðin og með skuldir sem hafa vaxið með gríðarlegum hraða á undanförnum árum. Við erum með þjóðarbú sem allir vita að er hættulega skuldsett. Í stað þess að ræða þessi efnisatriði málefnalega, að hverju þarf að gæta og með hvaða hætti sé hægt að fást við þessa stöðu, þá virðist ríkisstjórnin einfaldlega ekki taka það alvarlega að hún hefur misst stjórn á efnahagsmálum.

Þegar ríkisstjórn tekur það ekki alvarlega að bjóða landsmönnum upp á einhverja mestu verðbólgu í Evrópu og einhverja hæstu vexti í heimi, þegar það er eitthvert aukaatriði í umræðunni, er ástæða til að skipta um ríkisstjórn. Viðhorfsvandi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum lýsti sér ágætlega í því þegar hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fjallaði um hina svokölluðu aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn þenslu. Hverjar voru aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn þenslu?

Þær voru sýndarmennska. Þær voru einfaldlega sýndarmennska. Það var, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson hefur bent á, 90 daga leikrit. Níutíu daga leikrit þar sem tilkynnt var um að það ætti að fresta — hverju? Jú, tónlistar- og ráðstefnuhúsinu. Hafa ekki allir sem keyrt hafa þar fram hjá séð framkvæmdirnar allan þann tíma í fullum gangi? Það átti að fresta vegaframkvæmdum og hvaða vegaframkvæmdum? Nú, vegaframkvæmdum sem menn komust ekki yfir að sinna, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur upplýst hér.

Þegar ríkisstjórn tekur ekki meira mark á (Forseti hringir.) 7,5% verðbólgu og stýrivöxtum jafnháum og við erum að fást við í dag, en lætur sér nægja sýndaraðgerðir eins og þessar (Forseti hringir.) og býður okkur síðan upp á kosningafjárlög eins og þessi, er einfaldlega kominn tími til að skipta þeirri ríkisstjórn (Forseti hringir.) út. Hún hefur engin verkefni að vinna.

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. ræðumann um að halda ræðutíma.)