133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:26]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú fer hæstv. fjármálaráðherra villur vegar í hugtökum. Það er sveiflujöfnun en ekki tekjujöfnun sem skýrir þetta eðli skattheimtunnar. Það sem þessi ríkisstjórn (Fjmrh.: Hvort tveggja.) hefur hins vegar gert er að breyta skattkerfinu til að auka ójöfnuð, til að lækka skatta á hátekjufólk eins og mig og fjármálaráðherra þannig að við borgum sennilega mánaðarlaununum minna í skatta núna en við gerðum þegar þessi ríkisstjórn hóf ferilinn meðan lífeyrisþegar, sem ekki hafa annað sér til framfærslu en greiðslur Tryggingastofnunar, borga mánaðarlaunum meira á ári. Það er ekki flóknara en það.

Auk þessa hefur ríkisstjórnin komið upp fjármagnstekjuskatti sem hefur orðið mönnum leið til þess að taka verulegan hluta tekna sinna eftir öðrum leiðum en áður og deila þannig ekki kjörum með vinnandi fólki í því að borga 33% skatt af tekjum sínum heldur borga bara 10% skatt, t.d. af söluhagnaði, fjármagnstekjum eða arði af rekstri sínum. Nú er svo komið að millitekjufólk með venjulegar tekjur, sem vinnur sína vinnuviku, borgar hærra hlutfall, beinlínis hærri prósentu af tekjum sínum, en þeir sem hafa miklu meiri tekjur og hefði þó deilan einhvern tíma staðið um að það væri lágmarkskrafa að þeir sem mestar hafa tekjurnar borgi sömu prósentu og venjulegt vinnandi fólk. En hér er tilfellið orðið það að venjulegt vinnandi fólk borgar miklu hærri prósentu, jafnvel upp í tvöfalt hærri prósentu af tekjum sínum en þeir sem best hafa það í samfélaginu.

Það er þetta óréttlæti í skattkerfinu (Forseti hringir.) sem allir hljóta að gagnrýna sem vilja reyna að (Forseti hringir.) halda þessu samfélagi saman sem einni heild.