133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:29]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það er greinilegt að þetta fjárlagafrumvarp ber merki um trausta efnahagsstjórn sem hér ríkir og hefur ríkt í landinu undanfarin 11 ár. Þetta er líka merki um hinn góða árangur sem náðst hefur á öllum sviðum þjóðlífsins á síðustu þremur kjörtímabilum. Hvað varðar bara þetta kjörtímabil kemur fram að landsframleiðsla hefur aukist um 23% og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um 22%.

Hvað þýðir þetta, virðulegi forseti? Þetta þýðir að heimilin í landinu, fólkið í landinu hefur 22% meira til ráðstöfunar en það hafði á árinu 2003, að raunvirði. Þrátt fyrir allan þennan árangur sem hefur náðst og öll þau útgjöld sem ríkið og ríkisstjórnin er að leggja til, þá er samt gert ráð fyrir 15,5 milljörðum í tekjuafgang af fjárlögum næsta árs. Það er í raun og veru 23 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í langtímaáætlun ríkisins. Þetta gerir það auðvitað að verkum að við getum greitt niður skuldir ríkissjóðs sem hafa þó minnkað mjög skarpt á síðastliðnum árum, eins og ég mun koma frekar að síðar í ræðu minni.

Hvað er það sem veldur þessu? Er það nú svo að þetta gerist allt af sjálfu sér, eins og mátti skilja af hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni hér fyrr í morgun? Er það svo að vinstri flokkarnir í landinu hafi verið svona óheppnir við stjórn landsins að hlutirnir hafi bara ekki gerst af sjálfu sér þá? En núna síðustu tíu ár sé allt í lukkunnar standi af því hlutirnir gangi bara upp af sjálfu sér? Auðvitað er það ekki svo, hæstv. forseti.

Verulegar breytingar hafa átt sér stað í íslensku þjóðlífi á undanförnum áratug. Það ríkir meira frjálsræði í viðskiptum. Meira að segja hv. þm. Jón Bjarnason viðurkenndi hér í umræðu fyrr í dag að bankarnir væru farnir að standa sig vel. Það skiptir því kannski einhverju máli það frjálsræði í viðskipta- og efnahagslífinu sem núverandi ríkisstjórn og ríkisstjórnarflokkarnir hafa komið á á undanförnum árum. Það er gott að hv. þm. Jón Bjarnason er loksins farinn að átta sig á samhengi hlutanna hvað það varðar.

Sá stöðugleiki sem ríkt hefur í efnahagslífinu á undanförnum árum skapar ekki aðeins svigrúm til niðurgreiðslu skulda heldur einnig til lækkunar skatta eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu og menn hafa tekið eftir af störfum ríkisstjórnarflokkanna síðustu árin. Gaman er að geta þess að það lítur út fyrir að á þessu ári verði tekjuafgangur ríkissjóðs 49 milljarðar kr. í stað 19,6 milljarða. Heildartekjur ríkissjóðs fyrir árið 2006 verða 40 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum.

Af hverju er þetta? Er þetta eitthvað sem gerist af sjálfu sér, hæstv. forseti? Nei, þetta eru auðvitað meiri umsvif í íslensku samfélagi, m.a. vegna hærri tekjuskatts einstaklinga, vegna hærri launa og sömuleiðis vegna fjölgunar fólks á vinnumarkaði.

Hæstv. forseti. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir aukningu á framlögum til samgöngumála. Gert er ráð fyrir aukningu til menntamála og gert er ráð fyrir aukningu til velferðarmála, bæði heilbrigðismála og félagsmála. Það er kannski rétt að fara aðeins frekar yfir það að framlög til menntamálaráðuneytis munu aukast um 5,1 milljarð. Framlög til félagsmálaráðuneytis um 4,5 milljarða og fjárheimildir til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis um 13 milljarða kr. Alls er gert ráð fyrir að ríkisútgjöldin aukist um 43 milljarða kr. Af hverju er það? Það er auðvitað vegna þess að ríkisstjórnin leggur aukna áherslu á menntun, heilbrigðismál og félagsmál.

Það er líka annað atriði sem er vert að hafa í huga við þessa umræðu og ég gat um fyrr í ræðu minni en það eru skuldir hins opinbera. Frá 1995 hafa skuldir ríkissjóðs lækkað um hvorki meira né minna en 77%. Þannig að ríkissjóður er að verða skuldlaus. Nettóskuldir ríkissjóðs nema nú einungis um 6,74% af tekjum sjóðsins.

Það er erfitt hlutskipti, hæstv. forseti, að vera í stjórnarandstöðu við þessa umræðu. Þeim er vorkunn hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hér tala af skyldurækni gegn frumvarpinu og af algeru ráðleysi. Það þótti fréttnæmt hér á dögunum og var tilefni til boðunar sérstaks blaðamannafundar að þessir stjórnarandstöðuflokkar ætluðu að fara að vinna saman. Þessir stjórnarandstöðuflokkar sem eru búnir að vera hér í stjórnarandstöðu í 11½ ár undir ýmsum nöfnum og ýmsum kennitölum, þeir ætla að fara að vinna saman.

Hver er svo gagnrýnin á þetta frumvarp frá stjórnarandstöðunni? Verðandi fjármálaráðherra stjórnarandstöðunnar, Jón Bjarnason, yfir hverju kvartaði hann? Jú, litnum. Það væri daufur litur á frumvarpinu. Og auðvitað verður stóriðjustopp. Menn vita auðvitað hvað það þýðir þegar Jón Bjarnason, hv. þingmaður, verður orðinn fjármálaráðherra. Það verður ekki bara stóriðjustopp, það verður eitt allsherjarstopp í efnahagslífi Íslendinga og það er gott fyrir menn að vita það.

Hvað sagði fulltrúi Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson? Yfir hverju gat hann kvartað? Hann kvartaði ekki yfir frestun framkvæmda, heldur frestun útboðs framkvæmda um þrjá mánuði. Það voru einu athugasemdirnar sem hann hafði við fjárlagafrumvarpið. Það getur ekki verið mikið að í íslensku efnahagslífi, hæstv. forseti, þegar þetta eru einu umkvartanirnar.

Það er hins vegar athyglisvert og væri fróðlegt að heyra hvernig þingflokkur Frjálslynda flokksins ætlar að leysa úr því vandamáli. Vegna þess að hv. þm. Sigurjón Þórðarson gat þess hér í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að útgjöld ríkissjóðs væru allt of há og að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn stærsta félagsmálastofnun landsins. Útgjöld til velferðarmála eru líklega hátt í tvo þriðju af fjárlagafrumvarpinu. Hvar ætlar Frjálslyndi flokkurinn að skera niður í velferðarkerfinu til þess að leysa ríkissjóð og Sjálfstæðisflokkinn undan þeirri áþján að vera stærsta félagsmálastofnun landsins?

Það er auðvitað mikilvægt að menn hafi í huga samhengi hlutanna. Hér er ekkert sem gerist af sjálfu sér. Þetta fjárlagafrumvarp er afrakstur af áralangri vinnu ríkisstjórnarflokkanna og traustri efnahagsstjórn.