133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:39]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Árangur ríkisstjórnarinnar er að koma í ljós, ekki bara í þessum fjárlögum heldur ekki síður á þessari stundu í þjóðfélaginu. Það þýðir ekki, hæstv. forseti, að beina sjónum eingöngu að góðri stöðu ríkissjóðs og skuldastöðu ríkissjóðs þegar ekki er horft á heildarmyndina og skoðuð í leiðinni heildarskuldastaða alls kerfisins, heimilanna og fyrirtækjanna. Það er ekki nóg að horfa eingöngu á skuldastöðu ríkissjóðs.

Það þýðir ekki að guma eingöngu af þessum tölum. Það verður að horfa á staðreyndir og sjá hvernig fólkið í landinu lifir og býr og hvaða möguleika við höfum til framtíðar litið ef við höldum áfram þessari stefnu. Við höfum nefnt þetta stóriðjustefnu, því það er horft á hin stóru verkefni en ekki afleiðingar þeirrar stefnu sem hefur núna verið að vagga skútunni í þrjú undanfarin ár. Útflutningsgreinar okkar, ferðaþjónustan og þeir sem eiga allt undir útflutningnum hafa átt í verulegum erfiðleikum á löngum tíma. Við skulum þakka fyrir að þjónusta eins og ferðaþjónustan ætlar að lifa þetta af.

Hæstv. forseti. Ég vil líta á þessa umræðu í samhengi við utandagskrárumræðuna sem var hér í morgun, um misskiptinguna í þjóðfélaginu því hún er til staðar. Hún hefur aukist og fram hjá því verður ekki litið. Ég get ekki séð fyrir mér í framtíðinni þjóðfélag sem á að byggja því á að þiggja mola af borðum þeirra ríku. Þiggja mola frá auðjöfrunum og stórfyrirtækjunum sem eru í dag að styrkja og styðja velferðarkerfið, menntakerfið, listageirann og allt það svið. Því það eru margir sem líta á það sem framlag þessara auðjöfra, þessara stóru, sterku fyrirtækja til samfélagsins, samfélagsþjónustunnar. Það sé skylda þeirra vegna þess auðs sem þeir hafa fengið, margir hverjir í framhaldi af kvótabraski og kvótasölu, og hafa í beinu framhaldi auðgast vegna sölu ríkisbankanna og hafa þar af leiðandi haft tök á að standa í miklum fjárfestingum.

Ég vil ekki sjá þjóðfélag sem verður að reiða sig á að hin félagslega skylda, þjóðfélagslega skylda séð háð þessum einstaklingum og fyrirtæki eigi að halda hér uppi heilbrigðisþjónustu, menntun í landinu og styrkja listviðburði og fleira, sem verður æ algengara, því varla er hægt að halda samkomu eða meiri háttar viðburð án þess að leitað sé og verði að leita til bankanna eða einstaklinga til að styrkja viðkomandi atburð.

Hæstv. forseti. Til hvers eigum við að nota skattana, skattkerfið okkar, hvernig á álagning skatta að vera? Við eigum auðvitað að nota álagningu skatta til tekjujöfnunar. Skatttekjurnar eiga að koma hinum tekjuminni til góða. Við þurfum að hækka frítekjumarkið. Við þurfum að lækka skatta á matvörur og aðrar dagvörur sem koma barnafjölskyldum helst til góða. Nú hefur hæstv. ríkisstjórn loksins hlustað á þær háværu kröfur sem hafa verið undanfarin ár, að nauðsynlegt sé að lækka skattlagningu á matvörur. Nú er sú vinna í gangi og ég verð að vona að sú vinna skili mjög fljótlega árangri og komi fram hið fyrsta. Matvöruverð er hátt hér á landi en ég vil taka fram að það er ekki vegna bænda eða bændastéttarinnar eða vegna óeðlilegs reksturs í bændasamfélaginu. Það þarf að horfa á allt aðra þætti en það umhverfi sem við höfum búið bændum í dag.

Ég vil líka taka fram, hæstv. forseti, að fyrir utan skatta leggjum við á gjöld og álögur á ýmsum sviðum. Gjöld og álögur í heilbrigðisþjónustunni eru orðin allt of þung. Þetta eru orðnir allt of þungir, mér liggur við að segja skattar á þá sem minna mega sín, eru sjúkir eða þurfa á þjónustunni að halda. Það verður að endurskoða þessi gjöld. Það verður annaðhvort að lækka þau verulega eða afnema með öllu. Þá vil ég vísa til Evrópuþjóða, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði hér í dag. En ég tel að þar séum við ekki að horfa á það sama eða með sömu upplýsingar. Ég finn ekki þær þjóðir sem hann bendir á, ég þekki til í Þýskalandi þar sem það er algerlega gjaldfrjálst að fara bæði inn á heilsugæslustöð og á sjúkrahús og fá þar meðferð eða þjónustu. Heilbrigðisþjónustan í Þýskalandi þjónar einstaklingum betur hvað þetta varðar hvernig svo sem sjálf þjónustan er. Það þekki ég ekki að fullu.

Þjónustugjöld, komugjöld á göngudeildir sjúkrahúsanna og mikill lyfjakostnaður er allt saman þungur baggi fyrir þá einstaklinga sem þurfa á þeirri þjónustu að halda. Álagning á slíka þjónustu er ráðin hér í þessum sölum. Það verður að breyta þessum álögum. Ég tel eftir þá ræðu sem ég hlustaði á hjá hv. stjórnarliðum að það verði ekki gert hjá núverandi ríkisstjórn.

Ég vil nefna rekstur heilbrigðisstofnananna. Vissulega kemur fram í fjárlagafrumvarpinu hækkun inn í þann rekstrarlið. En ég segi nú bara, hæstv. forseti, þó það nú væri, ef Framsóknarflokkurinn ætlar að standa í lappirnar í þessum málaflokki. Ef heldur áfram sem horfir er ekki verið að gera neitt annað en að þvinga þær stofnanir út í einkarekstur, út í einkavæðingu. Þó ekki væri nema fyrir það að stofnanir missa fagfólk sitt eins og ástandið er í dag því þrengingarnar í heilbrigðiskerfinu, aðstæður hjá langflestum stofnunum eru þannig að það hefur ekki verið hægt að manna þær sómasamlega. Það hefur ekki verið hægt að reka þær eins og lög og reglugerðir segja til um. Ekki hefur verið hægt að reka þær eftir þeim metnaði sem viðkomandi stofnanir hafa og þeim möguleikum sem þær hafa miðað við þann mannskap sem þær hafa haft yfir að ráða.

Það eru svo langvarandi þrengingar í rekstrinum, lokanir, skerðingar á þjónustu og mjög mikið álag er á þá starfsmenn sem vinna á heilbrigðis- og öldrunarstofnunum og varla hægt að undanskilja nokkurn málaflokk á þessu sviði. Álagið er hvað mest á þeim sem sinna umönnunarstörfum. Fólk er að gefast upp. Störf þess eru ekki metin. Það er ekki hægt að hafa það yfir sér ár eftir ár að fara heim að loknum vinnudegi og hafa ekki getað skilað vinnu sinni eins og fólk veit að það á að gera. Það er ekki hægt að fara heim af vinnustað þar sem sjúklingar liggja á göngunum og viðkomandi starfsmenn vita að þeir fá ekki þá þjónustu sem þeir ættu að fá og ber að fá.

Öldrunarþjónustan er okkur til vansa og það þarf að koma verulegt fjármagn inn í þetta kerfi okkar ef við ætlum ekki að missa það út úr höndunum og verða okkur til (Forseti hringir.) smánar eða í einkareksturinn eins og mér sýnist allt stefna í.