133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:56]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði styðjum Framsóknarflokkinn í viðleitni þeirra að standa vörð um Íbúðalánasjóð. Ef einhver ætlar að standa vörð um Íbúðalánasjóð þá er það Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Ég ætla að vona að Framsóknarflokkurinn láti ekki undan síga í kröfunni um að gefa eftir og koma öllum lánum yfir til bankanna. Þá fyrst held ég að Íslendingar þurfi að óttast um sinn hag, ungu fjölskyldurnar.

Hvað varðar skatttekjur ríkissjóðs þá er hægt að afla skatttekna á svo margan hátt. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill fara allt aðrar leiðir til að afla skatttekna en núverandi ríkisstjórn hefur á stefnu sinni og hefur haft undanfarin ár. Við viljum ná miklu jafnari skatttekjum af einstaklingum með því að falla frá lágskattastefnu á hátekjumenn og lækka skattana á þá sem lægst laun hafa og að það verði gert með því að ná meira launajafnræði í þjóðfélaginu. Það er hægt að vinna að því líka. Það er hægt að ná meira launajafnræði í þjóðfélaginu með meiri menntun og betri heilbrigðisþjónustu. Það er hægt að gera það með fjölbreyttri atvinnustefnu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram frumvörp, sem ég hvet hv. þingmenn og þá sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins til að lesa, um sjálfbæra atvinnustefnu og um stuðning við lítil og meðalstór fyrirtæki, sem ég tel sjálfgefið (Forseti hringir.) að muni verða til farsældar fyrir fámennt þjóðfélag eins og okkar.