133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:09]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir að halda á lofti kosningaloforðum okkar framsóknarmanna og efndum á þeim. Það er rétt að við lofuðum 90% húsnæðislánum fyrir síðustu kosningar. Það er líka rétt að við höfum að fullu efnt það loforð með þeim afleiðingum að fjöldinn allur af ungu fólki sem áður hafði ekki tækifæri til þess hefur getað eignast þak yfir höfuðið.

Það sem vakti kannski frekar athygli hjá mér, hæstv. forseti, var að hv. þingmaður sagði að ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks væri vinstri stjórn. Þetta er mjög athyglisvert að heyra frá stjórnarandstöðunni. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er orðin vinstri stjórn. Af hverju er það? Það er af því að ríkisstjórnarflokkarnir hafa lagt áherslu á velferðarmál. Þetta er velferðarstjórn. Það er rétt hjá hv. þingmanni.

Það er hins vegar eitt sem hv. þingmaður þarf að skýra fyrir þingheimi og þjóð en það eru ummæli hans um stefnuræðu forsætisráðherra á mánudagskvöldið síðasta. Hann gat þess að það þyrfti sérstaklega að skera niður ríkisútgjöld. Hvar ætlar hv. þingmaður að skera niður ríkisútgjöld? 65% af ríkisútgjöldunum eru til velferðarmála. Hvar ætlar hv. þingmaður að skera niður?