133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:13]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var athyglisvert svar hjá hv. þingmanni. Hv. þingmaður ætlar að hjálpa vinstri stjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins við að skera niður lyfjaútgjöld ríkisins. Sami hv. þingmaður lýsti því yfir í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra að skera þyrfti niður útgjöld ríkisins. Þegar hann er spurður um hvaða ráð hann hafi í þeim efnum þá er það að skera niður lyfjainnkaup. Það voru öll ósköpin. Hvað skyldi hv. þingmaður ætla að skera lyfjainnkaupin mikið niður og hver á að borga lyfin? Ætlar hv. þingmaður að láta sjúklinga borga lyfin?

Ég bendi hv. þingmanni á að það er gert ráð fyrir 500 millj. kr. sparnaði í lyfjainnkaupum í fjárlagafrumvarpinu. Hvað treystir hv. þingmaður sér til að leggja til mikinn sparnað í þeim efnum og á hvaða forsendum, hæstv. forseti? Ég bendi á það eins og ég gat um í ræðu minni í morgun, hæstv. forseti, að þessi hv. þingmaður talaði um Sjálfstæðisflokkinn sem stærstu félagsmálastofnun landsins. Hvernig ætlar hv. þingmaður að bjarga Sjálfstæðisflokknum og íslenskri þjóð frá því að hafa Sjálfstæðisflokkinn sem stærstu félagsmálastofnun landsins? Það skiptir máli, hæstv. forseti.