133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:23]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja eins og er að mér finnst að framsóknarmenn ættu að fara varlega í að hæla sér af verkum sínum í félagsmálum og gagnvart þeim sem höllustum fæti standa í samfélaginu. (Gripið fram í: Nú?) Þeir hafa átt í stöðugum málaferlum við öryrkja í réttarsölum, þeir sviku samning sem þeir gerðu við unga öryrkja skömmu fyrir kosningar 2003 og handsalaður var í Þjóðmenningarhúsinu. Þetta er það sem blasir við og ég vara fólk við að taka loforð þeirra núna trúanleg. Við sjáum að það er búið að draga til baka 90% lánin sem þeir lofuðu fyrir síðustu kosningar: Þessi flokkur hvíldina á skilið.

Hvað varðar sjávarútveginn þá er ég sannfærður um það að þjóðin ber mikið tjón af þeirri stefnu sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa stefnt henni í og haldið uppi. Við sjáum byggðirnar eyðast. Hvað verður um Grímsey núna þegar 43% af kvótanum eru seld í burtu? Svona hefur þetta gengið. Við erum sannfærð um það í Frjálslynda flokknum að hægt sé að stýra þessu miklu betur. Ég hef ekki áhyggjur af fyrirtækjum eins og Samherja og því ágæta fyrirtæki FISK á Sauðárkróki. Ef þessi fyrirtæki verða í umhverfi þar sem sanngjarnar leikreglur ríkja munu þau örugglega spjara sig, rétt eins og þeir minni aðilar sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur virðast nú vera að þurrka út með sínu kerfi. Byggðirnar þola ekki þetta kerfi miklu lengur.

Næstu kosningar snúast um það hvernig við ætlum að hafa Ísland framtíðarinnar. Viljum við hafa Ísland framtíðarinnar eins og formaður Framsóknarflokksins vill hafa það, borgríkið Ísland, eða viljum við byggja landið?