133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:25]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hið mikilvæga plagg, frumvarp til fjárlaga árið 2007. Þetta hefur verið ágæt umræða sem hér hefur farið fram í dag en það er ýmislegt sem ég vil staldra við í þeirri umræðu.

Ég vil í upphafi segja að þetta plagg, frumvarp til fjárlaga árið 2007, er stefnumarkandi plagg af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þarna kemur nákvæmlega fram hvað menn ætla að gera og hver áhugi þeirra er á ákveðnum málaflokkum og hvernig þeir muni vinna í mjög mikilvægum málaflokkum sem snúa að almenningi.

Í því ljósi eru nokkrir hlutir sem ég vil staldra við. Í fyrsta lagi, og ég tek fram að ég átti sams konar samtal við hv. þm. Birki Jón Jónsson við fjárlagaumræðu á síðasta ári, er það sem snýr að vaxtabótunum. Þar hafði hv. þingmaður uppi ýmis orð og hélt því fram að þessi ríkisstjórn væri nú ekki að skerða vaxtabætur með nokkrum hætti. Í ræðu sinni fyrr í dag hélt hann því fram að verið væri að hækka vaxtabætur, að þessi ríkisstjórn hækki vaxtabætur.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki og átta mig ekki á því hvað fær hv. þingmann til að halda þessu fram þegar staðreyndirnar tala sínu máli. Staðreyndin er sú að bara á þessu kjörtímabili hafa vaxtabæturnar verið skertar verulega. (Gripið fram í.) Þær hafa verið skertar um hvorki meira né minna, frá árinu 2003 og til dagsins í dag, en u.þ.b. 1,4 milljarða á föstu verðlagi. Virðulegi forseti. Þetta eru skerðingar en ekki hækkanir ríkisstjórnarinnar á vaxtabótunum.

Virðulegi forseti. Ef skoðuð er bara krónutalan frá árinu 2003 þá erum við að tala um lækkun upp á rétt rúmlega hálfan milljarð til dagsins í dag. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Þetta tel ég, og vil draga hér fram, þetta tel ég gríðarlega alvarlega staðreynd vegna þess að það er þannig að verðbólgan er til komin vegna efnahagsmistaka þessarar ríkisstjórnar. Við búum hér við bullandi verðbólgu og verðtryggingin veldur því að lán fólks í landinu eru að tútna út. Framsóknarflokkurinn, sem gekk hér um í síðustu kosningabaráttu og lofaði ungu fólki íbúðum á slikk og góðum lánum, (BJJ: Hvaða mistaka?) stendur nú fyrir og hefur í þessari ríkisstjórn staðið fyrir stjórnvaldsaðgerðum sem hafa valdið gríðarlegum og sögulegum hækkunum á húsnæði hér á landi. Það hefur aldrei verið jafndýrt fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið og einmitt í dag. Hvernig svarar þessi ríkisstjórn þeirri staðreynd að lánin sem þetta unga fólk hefur tekið fyrir húsnæði sínu bólgna út, höfuðstóll þeirra er að bólgna út á tímum þessarar miklu verðbólgu? Hvernig svara menn því? Þeir skerða vaxtabæturnar, það eina sem þetta unga fólk taldi sig geta stólað á. Þeir skerða vaxtabæturnar um rúman milljarð á þessu kjörtímabili. Virðulegi forseti. Það verður nú ekki beysið þegar hv. þingmenn Framsóknarflokksins þurfa að fara að svara kjósendum sínum frá síðustu kosningum (Gripið fram í.) hvað þetta mál varðar.

Frú forseti. Það særir blygðunarkennd mína að sitja hér annað árið í röð og hlusta á þessa, ég leyfi mér að segja og ég vona að forseti afsaki mig, þvælu, um hækkanir á vaxtabótum og að hér sé ekki verið að skerða nokkurn skapaðan hlut.

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar vaxtabæturnar bara á þessu kjörtímabili þá hafa aðferðirnar sem ríkisstjórnin hefur beitt til að skera þær niður verið ævintýralegar. Það hefur t.d. verið farin sú leið að lækka hlutfall af eftirstöðvum skulda. Menn hafa verið að lækka viðmið. Menn hafa farið þá leið að fara með þetta hlutfall úr 7% árið 2003 niður í 5,5% og síðan aftur niður í 5%. Núna ætla menn að reyna að skila einhverju örlitlu til baka af þessu með því að hækka þetta aftur upp í 6%. En það liggur ekkert fyrir um hvernig skerðingarmörkin með tilliti til eigna verði í því samhengi. Miðað við þær upphæðir sem við sjáum í þessu fjárlagafrumvarpi hef ég ekki mikla trú á að það muni gagnast eins og vera ætti. Miðað við þá stöðu sem ungt fólk er í sem skuldar í íbúðum sínum.

Virðulegi forseti. Það hefur oft verið sagt um þessa ríkisstjórn að hún sé þrotin hugmyndum. Ég hef staðið fyrir því. Ég hef staðið hér í þessum stól og sagt það. Ég ætla að leyfa mér að draga þau orð til baka. Vegna þess að þessi ríkisstjórn hefur ótrúlegt hugmyndaflug. Ótrúlegt hugmyndaflug þegar kemur að því að þrengja að heimilunum í landinu og þá ekki síst unga fólkinu. Þetta er eingöngu eitt dæmið um það. Þannig að ég ætla að draga þau orð mín til baka.

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að Framsóknarflokkurinn, ég sagði þetta sama hérna í fyrra og vona að ég þurfi ekki að segja það aftur á næsta ári, fari að sjá að sér hvað varðar þessar vaxtabætur. Ég skil afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur aldrei verið hlynntur þessu vaxtabótakerfi. Ungir sjálfstæðismenn vilja leggja það af. Framsóknarflokkurinn hefur viljað halda því á lofti en hann virðist vera að hoppa á vagninn með Sjálfstæðisflokknum með að leggja það hreinlega í rúst.

Virðulegi forseti. Það er kominn tími til að menn taki sig saman og fari að huga að því hvaða afleiðingar stjórnvaldsaðgerðir hafa á mismunandi hópa. Einn sá hópur sem verður að fara að skoða er ungt fólk og barnafólk. Vegna þess að stjórnvaldsaðgerðir síðustu ára hitta þetta fólk mjög illa fyrir.

Virðulegi forseti. Í lok máls míns, því tíminn flýgur, þá vil ég aðeins koma inn á framhaldsskólann. Í fjárlagafrumvarpinu er verið að skera niður til framhaldsskólans. Fjármagn til framhaldsskólans er aukið um 500 millj. kr. vegna fjölgunar nemenda en 300 millj. kr. hafa verið teknar til baka til að mæta aðhaldskröfum.

Virðulegi forseti. Hvernig er það gert? Það er gert með því að gera breytingar á reiknilíkaninu sem átti að vera traust undirstaða framhaldsskólanna til þess að geta byggt áætlanagerð sína á. En nú er reiknilíkaninu breytt þannig að það er þrengt að skólunum. Það er verið að nota reiknilíkanið til að mæta aðhaldskröfu.

Virðulegi forseti. Þetta er braut sem mér finnst uggvænleg. Vegna þess að reiknilíkanið átti að setja alla við sama borð og átti að vera skólunum traustur grunnur fyrir áætlanagerð. Hvað gerist ef reiknilíkanið sjálft er notað til að mæta aðhaldskröfum?

Virðulegi forseti. Svona vinnubrögð ganga ekki. Þau ganga ekki. Þarna er verið að skera niður. Þarna er verið að rýra framlögin sem eiga að fylgja hverjum nemanda inn í framhaldsskólana, sem er uggvænleg þróun í ljósi þess að við höfum nýlega fengið úttekt frá OECD sem sýnir að við erum í 19. sæti yfir framlög til framhaldsskólans hér á landi.

Virðulegi forseti. Ég varð að koma hér inn á þetta. Ég hef verulegar áhyggjur af því hvernig ríkið er að fara með þau skólastig sem eru á þess snærum. Við vitum að við komum vel út í skýrslu OECD um framlög okkar til menntamála. Við erum ofarlega þar, í þriðja sæti vegna framlaga til leikskóla og í sjötta sæti til grunnskóla, sem sýnir að sveitarfélögin standa sig í stykkinu. Sveitarfélögin eru með þessi skólastig og þau standa sig í stykkinu. En við húrrum niður í 19. og 21. sæti í samanburðinum þegar kemur að þeim skólastigum sem eru á hendi ríkisins.

Virðulegi forseti. Menn geta ekki haldið því fram að það sé verið að gefa í til menntamála þegar raunin er allt önnur. Það verður (Forseti hringir.) að tryggja framlag með hverjum einasta nemanda eins og áætlað hefur verið og skólarnir höfðu gert ráð fyrir í sínum áætlunum.