133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:36]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var nú meiri dómadagsræðan og ég hvet nú hv. þingmann til að sýna stillingu í þeirri umræðu sem hér fer fram, sérstaklega þegar við tölum um vaxtabætur. Ég ætla að lesa hér upp af bls. 393 úr fjárlagafrumvarpinu og hv. þingmaður er nú nefndarmaður í fjárlaganefnd, en á fjárlögum ársins 2006 var ákveðið að verja 5,1 milljarði til vaxtabóta. Vegna hækkandi eignaverðs varð það þannig við álagningu núna á vormánuðum að þessi 5,1 milljarður fór ekki allur út og núna er unnið að því á vettvangi ríkisstjórnarinnar að breyta reglum til að rétta hlut þeirra sem áttu að fá vaxtabætur nú á þessu ári.

Á næsta ári er hins vegar í frumvarpi fyrir árið 2007 þessi upphæð hækkuð upp í 5 milljarða og 530 millj. Þannig að á árabilinu 2006 til 2007 er verið að hækka vaxtabætur um 430 milljarða. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir kemur svo hér og eys úr skálum reiði sinnar. En ég held að það sé rétt, þar sem við höfum nú tölurnar á hreinu í þessu, þannig að það er verið að auka vaxtabætur eins og ég sagði hér í fyrri ræðu minni, á milli áranna 2006 og 2007.

Hæstv. forseti. Það var dálítið merkilegt að heyra ræðu hv. þingmanns um framlög til menntamála hér á landi. Það er m.a. búið að auka framlög til háskólastigsins á árunum 1998 til 2006 um 80% að raungildi. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður reynir að gera þá mynd hér að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig í þessum málefnum þegar við höfum hækkað framlögin um 80% að raunvirði. Það er kannski enginn sérstakur árangur. (Forseti hringir.) En ég er mjög stoltur af þeim árangri.