133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:42]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér upp og talar um þetta glæsilega fjárlagafrumvarp. Það er rétt. Heimilisbókhaldið hjá ríkisstjórninni er í ágætismálum. Hins vegar er heimilisbókhaldið hjá því unga fólki sem er með húsnæðislán ekki jafnglæsilegt. Því hver ber hitann og þungann af verðbólgunni? Það er þetta fólk meðan aðrir eru með belti og axlabönd með verðtryggingu hvað þessi mál varðar og þurfa ekki að bera hitann og þungann af þessari verðbólgu.

En heimilisbókhaldið hjá fólkinu í landinu gerir það. Það er móðgun við þetta fólk að halda því fram að hér sé allt í blóma þegar þetta er raunverulegt og stórt vandamál.

Frú forseti. Ég er ekki með neina heimsendaspá. Ég er eingöngu að fara fram á að menn horfist í augu við þessa staðreynd og að þegar þeir flytja mál sitt hér í ræðustól Alþingis þá haldi þeir ekki fram staðlausum stöfum um hækkanir eða að engar skerðingar séu á vaxtabótum. Það er þetta, frú forseti, sem mér svíður.

Ég vil segja, frú forseti, að ég vona að við eigum fram undan góða umræðu um þessi mál og menn muni sjá að sér. Því ef það er einhver hópur hér í landi, það er það eina sem ég er að biðja um, sem þarf að mæta með einhverjum hætti þá er það ungt fólk með skuldirnar út af húsnæði, sem situr uppi með verðbólguna á bakinu, sem hefur verið búin til af öðrum en þeim. Hvaða möguleika eiga þau til að ráðast gegn verðbólgunni? Enga. En hvaða möguleika hefur ríkið til þess? Mjög mikla. Hefur ríkið gert eitthvað í því? Nei.

Frú forseti. Það sem ég er að biðja um og vona er að hv. þm. Birkir Jón Jónsson formaður fjárlaganefndar komi með mér í þann leiðangur (Forseti hringir.) að reyna að mæta þessum hópi með einhverjum myndarlegum hætti.