133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[16:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef hlustað með mikilli athygli á þá umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Hún er hefðbundin. Stjórnarliðar reyna að verja fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt frumvarpið og reynt að finna á því veika bletti. En ég velti því fyrir mér hvað það fólk hugsi sem fylgist með þessari umræðu og er kannski ekki alveg eins vel haldið og fólkið í þessum sal, fólk sem ekki býr við gott heilsufar, fólk sem þarf að leita sér lækninga og greiða fyrir þær sífellt hærra verð með komugjöldum og margvíslegum sjúklingagjöldum. Ég velti því fyrir mér hvað það fólk hugsar sem er að kaupa íbúðir og finnur brenna á sér síhækkandi vexti. Ég velti fyrir mér hvað fyrirtækin og forsvarsmenn þeirra fyrirtækja hugsa sem heyra hástemmdar yfirlýsingar stjórnarsinna um efnahagsástandið, hvað þeir hugsa um leið og þeir horfa á bókhald eigin fyrirtækja. Þeir eru að sligast undan okurvaxtastefnunni og erfiðum skilyrðum.

Hv. þm. Birkir Jónsson, formaður fjárlaganefndar, býsnaðist mikið í dag yfir atvinnustefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og spurði hver hún væri. Hann taldi hana ekki vera til. Ég get upplýst hv. þingmann um í hverju hún liggur meðal annars. Hún liggur m.a. í því að stuðla að lágum vöxtum og þannig hagstæðum skilyrðum fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Og það er m.a. á þeirri forsendu sem við höfum gagnrýnt stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar, sem valdið hefur þenslu og hækkandi vöxtum. Stýrivextir Seðlabankans eru hærri nú en dæmi eru um. Hvers vegna? Til að reyna að slá af þenslu sem rekja má til stóriðjustefnunnar. Þegar hv. þingmaður talaði um ávinninginn af stóriðjustefnunni þá er hann vægast sagt mjög umdeildur. Það hafa aldrei farið fram af hálfu stjórnvalda útreikningar á þjóðhagslegum ávinningi af meintum virðisauka sem stóriðjan á að skila inn í þjóðarbúið. Þessi umræða fór aldrei fram. Ég fylgdist mjög vel með umræðunni, sat í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins þegar hún fór fram og spurði aftur og ítrekað helstu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar úr fjármálaheiminum hvort þeir hefðu gert slíka útreikninga. Þeir kváðu nei við. Ég spurði: Er það virkilega svo að þið eruð að skoða málið á sömu forsendum og þið væruð að skoða flutning á grjóti í róðrarbát til Færeyja eða byggingu píramída á Sprengisandi, bara umfang aðgerðanna, efnahagslegt umfang aðgerðanna. Já, þeir sögðu að svo væri, okkur hefur aldrei verið falið að skoða þjóðhagslegan ávinning þessara framkvæmda. En nánast allir sjálfstæðir hagfræðingar sem hafa skoðað þessi mál hafa lýst miklum efasemdum og sumir talið að útkoman verði neikvæð.

Við erum þeirrar skoðunar að þegar málið er gert upp þá sé um mjög óheppilega atvinnustefnu að ræða fyrir Íslendinga. Við eigum þvert á móti að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífinu og það gerum við m.a. með því móti sem ég hef verið að lýsa. Þetta er atvinnustefna.

Hæstv. fjármálaráðherra sló eiginlega öll met í umræðunni í dag þegar hann svaraði talsmanni Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þm. Jóni Bjarnasyni, sem er fulltrúi okkar í fjárlaganefnd þingsins. Hv. þingmaður Jón Bjarnason gerði góða grein fyrir viðhorfi okkar til fjárlagafrumvarpsins. Hann sagði m.a. að það sem vantaði í þetta frumvarp væru nokkrar síður um sjálfar forsendurnar sem það hvíldi á. Hann sagði að það vantaði upplýsingar um hvaða stefna yrði tekin á komandi árum í stóriðjumálum vegna þess að við erum væntanlega öll búin að ræða það eða hugleiða hvaða þýðingu það hefur ef viðskiptahallinn og skuldaaukning við útlönd verður með sama hætti og verið hefur á undanförnum árum. Þar kemur stóriðjan að sjálfsögðu við sögu og hvert stefnir í þeim efnum. Nei, þá kvaddi hæstv. fjármálaráðherra sér hljóðs og sagðist ekki skilja í hvaða hugarheimi hv. þingmaður væri vegna þess — ég tók þetta niður, með leyfi forseta — að ekki væri „um skipulagt hagkerfi að ræða“.

Þetta voru orð hæstv. fjármálaráðherra, ráðherra í ríkisstjórn sem hefur á teikniborðinu stóraukningu á stóriðju í landinu. Þar er rætt um þrjá staði: Húsavík, helmingsstækkun í Straumsvík og síðan í Helguvík. En í öllum tilvikum koma stjórnvöld við sögu. Málið snýst að sjálfsögðu um það, sem er hlutur stjórnvalda, að sjá þessum fyrirtækjum fyrir orkunni. Það er okkar framlag. Það er framlag ríkisins. Það er hið skipulagða í málinu eða var hún með mjög óskipulegum hætti að undirrita allar viljayfirlýsingarnar, hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir, á Húsavík og í Helguvík. Var það með óskipulegum hætti? Hvernig var fundurinn sem hæstv. þáverandi forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, átti með forstjóra álversins í Straumsvík þegar um það var rætt að jafnvel loka því ef þeir fengju ekki orku á viðráðanlegum prís og nógu hratt? Auðvitað er þetta skipulagt í hagkerfinu. Þetta er stjórnarstefna. Nú eru á borðinu áform um framkvæmdir sem, ef þau kæmu til framkvæmda, nema um 450 milljörðum kr. Okkur er sagt að þetta verði ekki á næstu árum en jafnvel eitt mundi stórlega raska forsendum í öllum spám ríkisstjórnarinnar. Þess vegna tek ég undir það með hv. þingmanni Jóni Bjarnasyni, að þetta þarf að liggja alveg ljóst fyrir af hálfu stjórnvalda. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að það væri ekki hægt að staðhæfa að af þessum framkvæmdum eða einhverjum þeirra yrði. En það væri heldur ekki hægt að segja að svo yrði ekki. Hvers konar ráðslag er þetta eiginlega?

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson hefur verið í forsvari fyrir samtök atvinnurekenda á Íslandi, hefur rekið fyrirtæki og hefur mikla reynslu á þeim sviðum og víðtæka reynslu í umræðu um þessi mál. Það kom mér á óvart að heyra á hve óábyrgan hátt hann talar um fjármál og efnahagsforsendur þjóðarinnar. Hann talar í prósentum einvörðungu og segir að hér búi allir við góðan hag en neitar að horfa á hvað liggur að baki. Hann horfir ekki á skuldastöðu þjóðarinnar. Hann horfir vissulega á skuldastöðu ríkissjóðs og það er rétt að hún hefur farið niður en skuldastaða þjóðarinnar í heild sinni hefur aukist. Viðskiptahallinn við útlönd er nú meiri en dæmi eru um í sögunni, 18,6% af landsframleiðslu. Við erum að tala um 210 milljarða kr. á þessu ári. (GÓJ: Minnkar á næsta ári.) Þetta var líka sagt í fyrra. Þá var spáð 100 milljarða halla. Hver varð hann fyrir árið í fyrra? Hann var 161 milljarður. Það var veruleikinn. Að sjálfsögðu þarf að horfa á þessar forsendur. Og bara væntingarnar, einvörðungu væntingarnar um eitt álver í viðbót, að Framsóknarflokkurinn nái sínum draumum fram um frekari stóriðju, munu raska þessum forsendum öllum. Það er í hæsta máta óábyrgt að fara fram eins og hér er gert og neita að ræða þessa hluti og skýra okkur frá því hvað raunverulega vakir fyrir stjórnvöldum í þeim efnum.