133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:00]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta kemur mér mjög mikið á óvart. Ég ætla ekki að fara að metast við menn um það hvað hver hefur sagt, en ég hélt að það væru fáir menn alla vega hér á Alþingi sem hafa haldið fleiri ræður og oftar en ég og varað við hávaxta- og hágengisstefnunni sem hér er við lýði. Ég hef efast um hana í mörg ár. En ég efast líka um fullyrðingar hv. þingmanns að þessar virkjunarframkvæmdir hafi þessi ofboðslegu ruðningsáhrif sem þeir vilja vera láta.

Það liggur fyrir að innlendur virðisauki af virkjunum og framkvæmdum fyrir austan er rúmlega 70 milljarðar, það liggur fyrir. Við höfum notað til þess erlent vinnuafl að stórum hluta.

Hins vegar liggur einnig fyrir að á sama tíma og framkvæmdir hafa staðið hefur nettóinnstreymi erlendra lána til Íslands numið 700 milljörðum kr. Svo geta menn deilt um hvaðan þensluáhrifin komi. Koma þau af innstreymi peninganna, sem fyrst og fremst er vegna vaxtamunar, eða koma þau vegna framkvæmdanna? Ég hef haldið því fram að þau kæmu vegna innstreymis peninganna og hinnar vafasömu vaxtastefnu sem við værum að reka og er sá skóli sem allir eða flestir þykjast fylgja. Hann væri mjög hættulegur því að hann gæti mjög auðveldlega snúist upp í andhverfu sína.

Því miður, virðulegi forseti, hef ég oft staðið fyrir þessi sjónarmið og ég minnist þess ekki að t.d. stjórnarandstöðuþingmenn hafi komið upp á undanförnum árum og tekið undir sjónarmið mín. Þá er ég orðinn gleyminn ef það hefur verið, ég hef aldrei heyrt það. Menn hafa bara verið á móti þessum virkjunum, á móti og aftur móti, og talið það allt frá hinu illa en ég er mjög sannfærður um að svo sé ekki. En hlutlaus úttekt — auðvitað er enginn vandi að framkvæma hana (Forseti hringir.) og nauðsynlegt að gera.