133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nú svolítið ódýrt núna þegar verið er að hleypa á Hálslón að segja: Við erum ekki á móti hlutlausri úttekt. Ég mótmæli því að við höfum ekki óskað eftir þessu hér fyrr á tíð og við höfum fært mjög ítarleg rök fyrir okkar máli. Þá er ég að horfa til hinna efnahagslegu þátta ekki síður en til annarra. Þetta er nú bara staðreynd.

Það er hins vegar rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að hann hefur varað mjög við hávaxtastefnu, það er alveg rétt, og hann hefur verið án efa mjög einlægur í því. Það sem ég er hins vegar að segja er að sú stefna sem hér hefur verið rekin, stóriðjustefnan, hefur leitt til hærri vaxta. Það hefur líka orsakast af innflæði peninganna, eins og hv. þingmaður bendir á, en þarna er líka samhengi á milli, vegna þess að peningamennirnir sem hafa verið að fjárfesta hér og taka til sín vaxtamuninn hafa treyst því að hér yrði ríkisstjórn sem ræki mjög grimma fjárfestingar- og þenslustefnu á komandi árum. Þess vegna hafa allar væntingar um frekari stóriðju haft áhrif á innstreymi peninganna. Það eru þessir þættir sem m.a. hafa verið gerðir að umfjöllunarefni í skýrslum OECD og er ég nú ekki helstur aðdáandi þeirra samtaka. OECD hefur varað við þessari stefnu mjög eindregið og mjög ítarlega í nýlegri skýrslu.

Það eru mörg önnur atriði sem ég vildi gjarnan gera að ítarlegra umfjöllunarefni varðandi fjárlögin en verð að gera það í annarri ræðu og ég óska eftir að ég verði þegar settur á mælendaskrá.