133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:09]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég frábið mér náttúrlega það að hv. þm. Ögmundur Jónasson geri Framsóknarflokknum upp skoðanir hvar eigi að virkja næst eða hvort eigi að virkja í framtíðinni. Ég vil segja það að að sjálfsögðu skil ég þær tilfinningar umhverfisverndarsinna að við séum að færa þarna fórnir. En við erum að gera það fyrir aðra hagsmuni, við erum að byggja upp atvinnulíf á Austurlandi, þúsund störf eru í húfi. Ég bar hér fram einfalda spurningu um stefnu Vinstri grænna ef þeir kæmust í ríkisstjórn. Hv. þm. Ögmundur Jónasson og hv. þm. Jón Bjarnason fara undan í flæmingi vegna þess að sú ræða, fjallræðan, sem Steingrímur J. Sigfússon hélt yfir sínum flokksmönnum fyrir austan nú fyrir nokkru var gjörsamlega út í hött. Þær hugmyndir sem foringi þessa stjórnmálaflokks lagði þar fram voru svo óábyrgar að það er á mörkunum að maður treysti því fólki til að koma að landstjórninni í framtíðinni.

Hv. þingmaður neitar því ekki að mögulega fari Vinstri grænir í þann leiðangur að tæma lónið, hann neitar því ekki. Þetta er bara mjög alvarlegur hlutur og ég verð bara að segja það að ég treysti Vinstri grænum til alls. Þetta er stjórnarandstöðuflokkurinn. Ég ætla að benda hv. þingmanni á að við höfum stóraukið framlög til velferðarmála, til mennta- og heilbrigðismála, við gerum það ekki nema halda úti öflugri atvinnustefnu, við gerum það ekki nema með því að auka ríkistekjur. Svo kemur þessi stjórnarandstöðuflokkur með þá tillögu að setja fjármál ríkisins á annan endann. Þessi stjórnmálaflokkur er ekki trúverðugur í þessum málum, talar um eilíf útgjöld en talar svo um jafnvel að koma í veg fyrir þá uppbyggingu sem á sér stað núna fyrir austan.