133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:11]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort það á að kalla þetta svar, ég segi bara: Vesalings, vesalings Framsóknarflokkurinn. Vesalings Framsóknarflokkurinn sem segir hér að hann virði tilfinningar fólks og skilji þegar það er núna grátandi undan verkum Framsóknarflokksins.

Hv. þingmaður segir að ég skuli ekki gera Framsóknarflokknum upp skoðanir um hvað hann vilji í þessum efnum, hann sé að þjóna öðrum hagsmunum og vísar þar til atvinnuhagsmuna á Austurlandi. En það eru fleiri hagsmunir sem Framsóknarflokkurinn er að þjóna. Eða í hvaða erindagjörðum fór þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra í höfuðstöðvar Alcoa í New York til að hlýða á boðskap þess fyrirtækis um hvar það vildi virkja eftir að ráðherrar Framsóknarflokksins höfðu farið með þá um norðanvert landið til að sýna þeim og falbjóða náttúruperlur landsins? (BJJ: Hver er stefnan?) Hver er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs? Hún er alveg skýr, við höfnum stóriðjustefnunni og stórvirkjunum í hennar þágu. Ég hélt að þetta væri öllum ljóst. Ræðan sem vísað er til var mjög góð og ég tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar við hvöttum til þess og kröfðumst þess að fallið yrði frá áformum um að fylla á Hálslón, í það minnsta þar til tilteknum skilyrðum yrði náð. Þetta er krafa sem hljómar og ómar um þjóðfélagið allt. (GÓJ: Ætlar þingmaðurinn að tæma lónið?)

Svo skulum við bara fá Framsóknarflokkinn og segja hvað hann hefur til málanna að leggja varðandi íslenskt efnahagslíf (Forseti hringir.) og íslenskt þjóðlíf. (GÓJ: Ætlar þingmaðurinn að tæma lónið?) Ég vona bara að kjósendur hlusti vel á þessa merku talsmenn Framsóknarflokksins.