133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:14]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Menn hafa hér talað um fjárlagafrumvarpið af miklu viti og víðsýni og sumir dregið arnsúg í flugnum, einkum þeir sem yngri eru og nýrri hér á þingi. Hefur verið aðdáunarvert að heyra hvílíkt mannvit er þar saman komið og næmur skilningur á ýmsum þáttum sem menn hafa tekið fyrir.

Það er líka eðlilegt að menn hafi farið út um víðan völl, síðast voru nokkrir þingmenn hér komnir ofan í Hálslón. Þó sumir mundu segja að þeir væru þar best geymdir þá bið ég hina sömu hv. þingmenn að draga sig þaðan upp hið fyrsta.

Mitt erindi hingað varðar einkum hæstv. menntamálaráðherra. Þó ég geti nú ekki farið fram á að hann verði kallaður til umræðunnar vil ég tjá forseta að það er óæskilegt að þessi fjárlagaumræða skuli ekki vera þannig skipulögð að hægt sé að fara í gegnum ákveðna málaflokka að minnsta kosti að þeim ráðherra viðstöddum sem um þá sér. Hæstv. fjármálaráðherra er ekki einu sinni hér viðstaddur, heldur þeir fóstbræður, hv. þingmenn formaður og varaformaður fjárlaganefndar, einir saman. Þótt þeir séu merkilegir og ágætir, einkum þegar þeir hafa dregið sig upp úr Hálslóni, koma þeir ekki í staðinn fyrir það „átoritet“ sem ráðherrar standa hér fyrir.

Mitt erindi í ræðustólinn er í raun og veru einsaga eins og það er kallað í nútímalegri sagnfræði. Þar hafa menn að undanförnu áttað sig á því að saga einstaklings, eins héraðs, eins fyrirtækis eða fyrirbrigðis meðal þjóðar eða mannfélags getur líka verið merkileg og hægt að draga af henni ýmsa lærdóma fyrir heildina.

Sú einsaga varðar hæstv. menntamálaráðherra. Hún varðar nákvæmlega nýja stofnun sem menntamálaráðherra gekkst fyrir að komið yrði á fót á síðasta þingi. Stofnun sem margir efuðust um að aðstoða ætti menntamálaráðherra við að koma á fót. Stofnun sem komið var á fót eftir að hæstv. menntamálaráðherra lagði fram frumvarp sem tók gagngerum breytingum í þinginu, svo gagngerum að meira að segja nafni stofnunarinnar, og þar með frumvarpsins, var breytt. Stofnun sem nú heitir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún var sett saman úr fimm minni stofnunum og efuðust margir um að þær ættu allar þar heima og því þá ekki fleiri. Eins og ég segi urðu miklar efasemdir um að þetta frumvarp ætti rétt á sér í byrjun.

Það gerðist hins vegar að menn náðu saman um að reyna þetta í bjartsýni og í trausti þess að vel yrði búið að þessari stofnun enda var markmiðið með frumvarpinu m.a. að efla það fræðasvið sem þarna ætti einkum heima, þ.e. svokölluð íslensk fræði. Er þá einkum átt við bókmenntir, handritafræði, sögu sem þessu tilheyrir og málfræði.

Hvernig hefur nú farið um þessa stofnun í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar? Jú, það er þannig að lagðar hafa verið saman þær tölur sem stofnanirnar fimm sem sameinaðar voru nú 1. september, hygg ég, í þessa stofnun, fengu fyrir árið 2006. Þær tölur eru síðan uppfærðar miðað við verðlagsútreikninga þá sem hér er beitt og munu einkum snúa að launum — dregnar frá vegna aðhalds tæpar 4 millj. af þessari upphæð. Síðan voru dregnir frá tímabundnir styrkir, öðrum styrkjum bætt við o.s.frv. og síðan er niðurstöðutala fengin, sem er 233,7 millj., í þessu frumvarpi.

Í frumvarpinu sem við samþykktum hér að lokum á síðasta þingi er sérstaklega getið um það í 7. gr. að í stofnuninni skuli vera tvær sérstakar rannsóknarstöður, önnur tengd nafni Árna Magnússonar, hin með sama hætti tengd nafni Sigurðar Nordals. Ég vek athygli á að það er í lögunum sjálfum sem þessar rannsóknarstöður eru tilgreindar.

Það auðveldaði mjög afgreiðslu málsins hér í fyrra að við 1. umr. um þetta frumvarp sagði menntamálaráðherra um þessar stöður, að þær mundu verða til strax á fyrsta starfsári hinnar nýju stofnunar. Ég ætla að lesa hér, með leyfi forseta, það loforð sem ráðherra gaf um þetta við 1. umr. Það var svona:

„Ég vil hins vegar vekja athygli á því að ég legg sérstaka áherslu á að litið verði til þess við gerð fjárlaga fyrir fyrsta heila starfsár stofnunarinnar, þ.e. fyrir árið 2007, að skapa stofnuninni svigrúm til að ráða í þessi störf sérstaklega sem kveðið er á um í 7. gr. frumvarpsins og þar með undirstrikað mikilvægi rannsóknarhlutverks stofnunarinnar.“

Þetta er nú ekki fallegur texti en hann segir nákvæmlega það sem hann átti að segja. Þetta er loforð. Þetta er fyrirheit ráðherra. Loforð hér úr þessum stóli við þingið og þar með við þjóðina og þá sem láta sér annt um þetta mál, að þessum stöðum verði komið á legg strax á næsta ári, árið 2007.

Skemmst er frá því að segja að ekkert sést til þessa fjár í fjárlagafrumvarpinu. Hæstv. menntamálaráðherra er þar með orðinn ómerkingur orða sinna hvað þetta varðar. Það er auðvitað ekkert nýtt að eitthvað sé gefið í skyn og síðan ekki við það staðið. Það er hins vegar nýtt, og ég hygg að það sé satt að segja alveg nýtt, að yfirlýsing af þessu tagi, forseti, sem þingmenn eru vanir að telja jafngildi loforðs — sem þingmenn og þeir aðrir sem málið varðar telja að sé þar með fastbundið — sé ekki efnd. Að ráðherra segi hér eitt og efni það síðan ekki á næsta ári.

Ég tel það ákaflega alvarlegt mál fyrir þann ráðherra sem um ræðir, hæstv. menntamálaráðherra, og raunar fyrir ríkisstjórnina alla, að ekki sé hægt að treysta því sem ráðherrar heita hér í þessum stóli. Vissulega er hér um bírókratískt orðalag að ræða. En það vita allir sem hér hafa komið nálægt þingsölum að einmitt þetta orðalag þýðir að menntamálaráðherra hefur lagt sig undir við að útvega það fé sem hér er um að tefla, enda er um nýja stofnun að ræða og því er treyst að það fé komi til.

Önnur fyrirheit og jákvæðar undirtektir við hvatningar, sem m.a. öll menntamálanefnd þingsins stóð að — um þau er hið sama að segja, að ekkert hefur verið gert með þau. Það þarf að ræða við menntamálaráðherra síðar. Aðalatriðið er þetta: Menntamálaráðherra gaf yfirlýsingu við 1. umr. um þetta tiltekna frumvarp hér í haust. Menntamálaráðherra stendur ekki við þessa yfirlýsingu. Menntamálaráðherra er ómerkingur orða sinna. Það er ekki hægt að treysta því hér eftir sem menntamálaráðherra segir úr þessum stól þegar um er að ræða fyrirheit eða loforð.

Það er ekki glæsileg staða, forseti, þegar menntamálaráðherra hefur kynnt hér að hún hyggist leggja fram m.a. frumvarp um fjölmiðlalög margvísleg. Frumvarp um nýja tegund af ríkisútvarpi. Það er ekki glæsileg staða.