133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:24]
Hlusta

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2007. Ég ætla að byrja á því að fagna sérstaklega þessu frumvarpi — þetta er gríðarlega sterkt frumvarp sem sýnir að við höfum verið á réttri leið — og óska fjármálaráðherra til hamingju með þá sterku stöðu ríkissjóðs sem birtist í því. Við höfum starfað hér samkvæmt langtímaáætlun. Við erum á hárréttri leið og erum byrjaðir að uppskera af þeirri stefnu sem við höfum mótað undanfarin ár. Þannig höfum við verið að greiða niður skuldir og við gerum það áfram samkvæmt þessu frumvarpi. Við höldum áfram að greiða niður skuldir, nefnilega um 25 milljarða, samkvæmt frumvarpinu sem liggur fyrir.

Við höfum undanfarin ár lagt áherslu á aðhald í ríkisfjármálum. Það birtist m.a. í því að við sýnum um 5% tekjuafgang af landsframleiðslu undanfarin ár og þá er ekki horft til tekna ríkisins af sölu Landssímans. Þetta skiptir máli. Á næsta ári er, eins og fram kemur í fylgiriti með þessu frumvarpi, þjóðhagsspá, gert ráð fyrir að dragi úr umsvifum í efnahagslífinu. Við höfum undanfarin ár verið að skapa svigrúm til þess að ríkið auki þá aðeins umsvif sín á sama tíma og skattar verði lækkaðir og framlög til velferðarmála aukin. Þetta sést til að mynda af því að farið verður í auknar framkvæmdir.

Í umræðunni í dag hefur mér heyrst af málflutningi stjórnarandstöðunnar að þeir reyni að taka í gíslingu einstaka afmarkaða málaflokka og draga þá fram í dagsljósið til vitnis um að hér séu menn á rangri leið. Eðlilegra hefði mér fundist að við 1. umr. fjárlaga, þegar við fáum þetta frumvarp og tökum 1. umr. um það, að menn einbeiti sér að stöðu efnahagsmála í víða samhenginu. Velti því fyrir sér hvort við séum að beita ríkisfjármálunum í þeim tilgangi sem við þurfum til að skapa það jafnvægi sem nauðsynlegt er. Vissulega eru vextir til að mynda um þessar mundir mun hærri en við viljum sjá þá. Verðbólga hefur einnig farið fram úr þeim viðmiðum sem við horfum til. Ég hefði talið eðlilegt að umræðan hefði snúist um þetta í dag og þá einkum um það hvort þetta fjárlagafrumvarp væri til þess fallið að spyrna við fótum.

Lagt er upp með það að verðbólgan fari niður á við og verði komin í eðlilegt horf á síðari hluta næsta árs, að viðskiptajöfnuðurinn snúist sömuleiðis mjög hratt við og vextir geti þar af leiðandi farið að lækka. En þetta hefur mest lítið verið til umfjöllunar hér.

Mig langar að taka sérstaklega til umfjöllunar vaxtagjöld og þann mikla vaxtasparnað sem hefur orðið vegna þeirrar stefnu ríkisstjórnarinnar að sýna aðhald og greiða niður skuldir. Ég hef látið reikna það fyrir mig svona lauslega hverju vaxtasparnaðurinn nemur þegar við horfum til þess sem þetta frumvarp leggur til og þeirrar stöðu sem var hér fyrir nokkrum árum. Um er að ræða vaxtasparnað af lækkun hreinna skulda ríkissjóðs, þ.e. tekin lán að frádregnum veittum lánum. Ég hef jafnframt látið reikna vaxtatekjur ríkissjóðs af inneignum hjá Seðlabankanum. Í þessum útreikningum hefur verið miðað við 6,5% nafnvexti sem er afskaplega hóflegt ef horft er á innlenda markaðinn en hins vegar er þess að geta að hluti af skuldum ríkisins er í útlöndum.

Samkvæmt þessum útreikningum er árlegur vaxtasparnaður 8,3 milljarðar ef miðað er við hreinar skuldir í árslok 2007 og borið saman við hreinar skuldir í árslok 1997, 8,3 milljarðar. Hreinar vaxtatekjur af heildareignum ríkisins og stofnana hjá Seðlabankanum eru 6,5 milljarðar, en þá er vissulega verið að miða við þessa sömu vaxtaprósentu. Það eru 6,5% sem verður að teljast afar hóflegt.

Þegar þetta tvennt er lagt saman, inneignir, þ.e. vaxtatekjur af inneignum, og vaxtagjaldasparnaður vegna þess að við höfum verið að greiða niður skuldir, er samtala þessara tveggja liða 14 til 15 milljarðar kr. á ári. Þá hef ég ekkert minnst á að við höfum verið að stórauka innborganir vegna lífeyrisskuldbindinga. Í árslok 2005 námu þannig fyrirframgreiðslur ríkissjóðs inn á lífeyrisskuldbindingar 100 milljörðum kr.

Hvað inneignirnar varðar, þá voru þær í lok ágúst síðastliðins rúmlega 100 milljarðar kr. hjá Seðlabanka Íslands. Þannig styður ríkissjóður við peningastefnuna með því að leggja fjármunina inn á reikning og koma þannig í veg fyrir að þeir séu í umferð.

Við skulum taka þessa tölu sem ég nefni hér um vaxtatekjurnar og vaxtagjöld sem hafa verið spöruð, með því að hafa greitt niður skuldir, og setja hana í samhengi við framkvæmdir ríkisins. Ef við setjum hana í samhengi við vegaframkvæmdir og aðra fjárfestingu ríkissjóðs þá var hún á árinu 2006 16,1 milljarður. Þannig að vaxtatekjur og spöruð vaxtagjöld eru um það bil jafnhá og heildarfjárfesting ríkissjóðs á ári. Það eru stórkostlegar fjárhæðir sem hér er um ræða. Við höfum stóraukið svigrúm ríkissjóðs til þess að láta gott af sér leiða, fara í samfélagslega arðbær verkefni og styrkja enn frekar velferðarkerfið.

Þetta eru stóru tíðindin þegar horft er yfir síðastliðin ár, þá stefnu sem hér hefur verið mörkuð í ríkisfjármálum og þann árangur sem við sjáum að við erum að uppskera í þessu fjárlagafrumvarpi. Þetta eru háar tölur.

Varðandi lífeyrissjóðina, 100 milljarða kr. fyrirframgreiðsla inn á lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs. Það eru ekki lágar tölur heldur. Staðan er reyndar sú að við erum öfundaðir hvarvetna, ekki einungis af stöðu lífeyrissjóðanna heldur ekki síður af því að við erum hér með lágan meðalaldur. Við erum tiltölulega ung þjóð. Það er ekki þannig alls staðar í löndunum í kringum okkur.

Annars staðar eru menn að kljást um það á þjóðþingunum að hækka þurfi eftirlaunaaldurinn, skera niður eftirlaunaréttindi. Sú umræða er ekki á dagskrá hjá okkur í dag. Hún verður það ekki í vetur. Hún verður það ekki á næstu árum vegna þeirrar stöðu sem við höfum skapað lífeyrissjóðunum á Íslandi.

Ég ætla í lokin að vekja athygli á töflum sem fylgja fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu og draga þetta myndrænt fram. Það er fróðlegt að skoða hreinar skuldir ríkissjóðs á Íslandi í samanburði við evrusvæðið og OECD-löndin. Á evrusvæðinu og hjá OECD-þjóðunum hafa hreinar skuldir ríkissjóðs verið á hægri uppleið, hafa verið að síga hægt upp á við á sama tíma og hreinar skuldir ríkissjóðs á Íslandi eru að hrynja. Þær hrynja niður á við vegna þess að við höfum haft svigrúm til þess að greiða niður skuldir.

Það er líka fróðlegt að skoða súlurit yfir eignir ríkisins í Seðlabankanum sem hafa undanfarin ár verið að skríða frá því að vera um 10 milljarðar árið 2000, og aðeins upp fyrir 10, og upp í um það bil 20 milljarða á árinu 2002 til 2004. En árið 2005 tekur viðkomandi súla stökk vegna sölu Landssímans og hún hækkar enn á árinu 2006. Heildareignir ríkisins í Seðlabankanum eru þannig komnar í 100 milljarða eins og ég gat um áðan. Staðan er afskaplega sterk. Við skulum fagna þessu fjárlagafrumvarpi.