133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi viðskiptahallann þá er það rétt, að það er verið að reyna að spá því hér í septemberhefti fjármálaráðuneytisins, Þjóðarbúskapnum, að hann fari niður en þó ekki nema niður í 10% á næsta ári. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson telur það of svartsýnt. Hann vonast til að hann gangi hraðar niður. En ég bendi bara á hvernig spárnar hafa staðist. Ég fór yfir það hvernig spáin í fyrra fór þannig að þar eru ekki nákvæmnisvísindi á ferð. Allar spár, bæði fjármálaráðuneytisins sjálfs og viðskiptabankanna gera ráð fyrir viðskiptahalla út þennan áratug, bara mismiklum. Ekki ein einasta spá gerir ráð fyrir því að viðskiptajöfnuður náist. Spurningin er aðeins um hve mikill viðskiptahallinn verður út þennan áratug. Það er alveg ljóst að verði ráðist í frekari stóriðjufjárfestingar þá vex hann á nýjan leik.

Varðandi arðsemina spyr ég hæstv. fjármálaráðherra á móti: Tekur fjármálaráðuneytið ekki alvarlega ítrekaðar ábendingar OECD sem spyr aftur og aftur í ársskýrslum sínum um efnahagsmál á Íslandi hvernig í ósköpunum standi á því að aldrei hafi verið gert gagnsætt arðsemismat á þessum framkvæmdum? Við nálgumst að sjálfsögðu hvert verkefni fyrir sig út frá því sem í því er fólgið. Ef því fylgja í fyrsta lagi óverjandi umhverfisspjöll þá erum við á móti þeirri framkvæmd, jafnvel þó að hún teldist mjög arðsöm, svo fjármálaráðherra hafi það frá fyrstu hendi. Þetta er ekki bara reikningsdæmi í okkar huga. Náttúran á Íslandi er ekki til sölu fyrir einhverja smáaura af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Við erum ekki svo fátæk þjóð að við förum að stórskemma landið okkar, hvað þá fyrir eitthvað sem orkar tvímælis að sé arðsamt fyrir þjóðarbúið. Hvers vegna spyr OECD í skýrslu sinni í sumar, með leyfi forseta, ég les á ensku og þýði svo á eftir: „… there are the more fundamental questions of whether they provide significant net benefits to the economy …“ — stóriðjuverkefnin. Það eru sem sagt uppi grundvallarspurningar um hvort þær séu nógu arðsamar fyrir þjóðarbúið. Þetta er mat sérfræðinganna hjá Efnahags- og framfarastofnuninni. Hvers vegna er þetta ekki kannað?