133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[17:54]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að hv. þingmaður er ekki mikill aðdáandi efnahagsstjórnar Seðlabankans en veruleikinn er eins og hann er, að stýrivextirnir eru 14% og Seðlabankinn er líklega að festast uppi með þessa stýrivexti. Það má auðvitað deila um það hvort það hafi ekki verið ógæfa í sjálfu sér þegar þenslutíminn gekk í garð að vextirnir voru jafnháir og raun ber vitni. Seðlabankinn ályktar sem svo: Við höfum bara þetta tæki og ef við ætlum að beita því þá verðum við að gera það með hreyfingum á vaxtastiginu. Við hækkum vextina til að kæla niður hagkerfið og þeir eru þarna, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, uppi í 14%.

Ef ríkisstjórnin ætlar að dæla nýjum stóriðjufjárfestingum inn í hagkerfið á næstu missirum þá mun það útiloka að Seðlabankinn komist niður með stýrivextina. Það er algerlega borðleggjandi því að hann fer ekki að lækka þá við þær aðstæður að nýtt þenslu- og verðbólgutímabil sé handan við hornið. Það er alvara málsins.

Varðandi viðskiptajöfnuðinn þá er það vissulega rétt að þjónustuviðskiptin eru þar en ég bendi á að vöruskiptajöfnuðurinn einn var neikvæður um 19,1 milljarð kr. í júlí. Hann fer að vísu lækkandi núna enda má hann lækka. Það munar um hvern mánuðinn sem vantar næstum 20 milljarða kr. upp á að bara vöruskiptajöfnuðurinn sé í lagi, hvað þá viðskiptajöfnuðurinn í heild.

Þegar við tölum um hinar erlendu skuldir og eignir á móti þá viðurkenni ég að það er mikil hreyfing í hagkerfinu, bæði út og inn. Þess vegna nota ég nettótölurnar. Hv. þingmaður hefur ekki heyrt mig hampa neinu öðru en erlendri nettóskuldastöðu þjóðarbúsins. Þess vegna má taka hreina stöðu ef við viljum skoða hana. Hún er líka komin yfir 100% af landsframleiðslu, hv. þingmaður. Algerlega hrein staða þjóðarbúsins þegar allt er tekið inn í reikninginn er orðin neikvæð um meira en eina landsframleiðslu, líklega 105% eða svo núna. Þetta er veruleikinn. Þetta eru óumdeilanlegar mælistærðir þegar við tökum hreinu stöðuna.