133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:06]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Herra forseti. Til að koma okkur í svona rétt hugarástand fyrir ræðu mína ætla ég að fá að lesa hér smákafla úr riti sem heitir Íþróttavæðum Ísland og var gefið út af menntamálaráðherra í janúar síðastliðnum.

Þar segir, með leyfi forseta:

„Fjölmargar rannsóknir á sviði félagsvísinda, bæði innlendar og erlendar, hafa á þann hátt ítrekað sýnt fram á forvarnargildi þess að taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi í ábyrgri umsjón en því meiri þátt sem unglingar taka í skipulögðu íþróttastarfi, því ólíklegri eru þeir þannig til að neyta vímuefna, áfengis og tóbaks. Íþróttastarf getur á þann hátt veitt börnum og unglingum ákveðna fótfestu í lífinu. Þá er foreldrum barna sem taka þátt í skipulögðu tómstundastarfi, líkt og íþróttastarfi, auðveldara að hafa eftirlit með börnum sínum en það stuðlar jafnframt að jákvæðu sambandi barna og foreldra en hvoru tveggja hefur forvarnargildi. Íþróttastarf virðist því kjörin tómstundaiðja þar sem bæði regluleg hreyfing og skipulagt tómstundastarf fela í sér forvörn.“

Herra forseti. Við erum að ræða um fjárlögin fyrir árið 2007. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa í dag gert ýmsar athugasemdir og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka þær.

Mig langar að horfa hér aðeins þröngt á ákveðna þætti og líta þá sérstaklega á málaflokk er tilheyrir menntamálaráðuneytinu, þ.e. íþrótta- og æskulýðsmál.

Einhverra hluta vegna virðast þessir málaflokkar mjög lítið vera ræddir hér á þingi og ekkert í dag fyrr en nú. Það er hægt að rífast, eins og hefur verið gert, um utanríkismál, skattamál, landbúnaðarmál o.s.frv. í allan dag. En við þurfum líka að skoða það umhverfi sem við búum æsku landsins í dag og í framtíðinni. Okkur berast æ oftar fregnir af auknum fíkniefnavanda og óreglu barna og unglinga og jafnframt berast okkur fregnir af offitu og hreyfingarleysi.

Fjárlagafrumvarpið er leiðandi fyrir það sem ríkisstjórnin ætlar sér að gera á næsta ári og þá jafnframt leiðandi fyrir stjórnmálaflokkana og þar af leiðandi alla stjórnarþingmenn. Það gefur sem sagt vísbendingar um það sem þeir ætla sér á næstunni.

Í fjárlagafrumvarpinu er því miður hvergi að finna vísbendingar þess að ríkisstjórnin ætli sér að veita aukið fé til forvarnamála. Það hefur því miður verið þannig undanfarinn áratug að meiri hluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur ekki viljað vinna frekar að forvörnum en frekar reynt að leysa vandann eftir að skaði er skeður eða þá jafnvel hreinlega breitt yfir vandann.

Ég hefði viljað sjá skýrt í þessu fjárlagafrumvarpi að meiri hlutinn ætlaði sér að efla forvarnir og koma í veg fyrir fíknaefnamisnotkun og jafnvel hreyfingarleysi barna og unglinga. Því miður sé ég ekki merki þess að það eigi að efla þær stofnanir sem vinna með börn og unglinga sem hafa leiðst út í óreglu og þurfa á aðstoð samfélagsins að halda til að komast aftur á rétta braut. Þannig að áfram mun verða viðhaldið þeirri togstreitu sem ríkisstjórnin hefur búið til á undanförnum áratug milli sín og meðferðaraðila.

Æskulýðsmál fá ekki stóran sess hér í fjárlagafrumvarpinu. Það sem er enn verra, herra forseti, er að það er lækkun á framlögum til æskulýðsmála í þessu fjárlagafrumvarpi miðað við síðustu fjárlög. Hér á bls. 305 er lítill kafli, 12–13 línur um æskulýðsmál og sá kafli snýst nánast einungis um niðurskurð til æskulýðsmála. Það er talað hér um niðurskurð til Ungmennafélags Íslands, til Bandalags íslenskra skáta, til Landssambands KFUM og K, Æskulýðsráðs, Æskulýðsmiðstöðvar KFUM í Vatnaskógi o.s.frv.

Ég taldi rétt, herra forseti, að vekja athygli á þessu hér í umræðunni. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að líta stundum þrengra á hlutina, þ.e. á það umhverfi sem við búum börnum og unglingum.

Síðan er hér, herra forseti, kafli um íþróttamál. Þar virðist stefna hæstv. fjármálaráðherra vera svipuð og í æskulýðsmálum, að lækka framlög til íþróttamála. Hér koma fram lækkanir til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, Íþróttasambands fatlaðra, Íþróttasjóðs, Skáksambands Íslands, Skákskóla Íslands, Glímusambandsins, Bridgesambandsins o.s.frv.

Það virðist vera að þetta sé andstætt, herra forseti, þeim stefnumiðum sem menntamálaráðherra hefur haft þegar hún gaf út ritið Íþróttavæðum Ísland í vor. Þetta er mikið rit um hvernig ráðherrann hyggst íþróttavæða landið. Af því tilefni spurði ég hæstv. menntamálaráðherra í vor hvort þessari stefnu mundi fylgja aukið fjármagn til íþróttamála. Svarið var þá, með leyfi forseta:

„Það snertir einfaldlega fjárlagagerðina hverju sinni og við munum ræða þetta í tengslum við fjárlögin.“

Herra forseti. Það er ástæðan fyrir því að ég ræði þetta hér. Samkvæmt þessum fjárlögum virðist það vera stefna ríkisstjórnarinnar að skera niður framlög til íþrótta- og æskulýðsmála og ég taldi fulla ástæðu hér í miðju argaþrasinu, um það sem menn kalla kannski stóru málin, stóriðjur, utanríkismál o.s.frv., að vekja athygli á þessari nýju stefnu ríkisstjórnarinnar, að skera niður framlög til íþrótta- og æskulýðsmála.