133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:27]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ánægjulegt að hv. þm. Gunnar Örlygsson skuli vera mættur til leiks þó svo að hann hafi greinilega lítið fylgst með því sem hér hefur fram farið fyrr í dag en betra er seint en aldrei og ég fagna því í sjálfu sér.

Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að þeir flokkar sem nú skipa stjórnarandstöðu hafa komið sér saman um að standa að ákveðnum málum og stilla saman strengi í ákveðnum grundvallarmálum. Ég er með eitt mál sem er að mínu viti tímamótamál, það er tillaga til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála, þingskjal 3, mál nr. 3, þar sem allir þingmenn þessara þriggja flokka eru flutningsmenn að. Þar er lagt til einmitt það sem sérstaklega vantar í stefnu Sjálfstæðisflokksins og í fjárlagafrumvarpið.

Númer eitt er lagt til að ný tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr. frá 1. janúar 2007 að viðbættum vísitölubreytingum sem þar hafa orðið. Að frítekjur vegna atvinnutekna lífeyrisþega verði 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007 og skerði ekki tekjutryggingu. Þetta er mikið réttlætismál gagnvart lífeyrisþegum, að þeir geti sótt og stundað launaða vinnu upp að ákveðnu marki án þess að það skerði lífeyrisgreiðslur þeirra.

Tillögur ríkisstjórnarinnar hljóða upp á það að árið 2009 verði veittar 20 þús. kr. á mánuði í þetta frítekjumark. (Forseti hringir.) Fleiri tillögur eru þarna sem ég get gert nánari grein fyrir sem undirstrika einmitt samstöðu þessara flokka í velferðarmálum.