133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:34]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni í dag gat ég þess í upphafi að það væri eitt sem menn mættu aldrei gleyma í þessari umræðu, það væri hin mikla eftirlitsskylda þingsins um fjárreiður ríkisins. Ég ætla ekki að ljúka þessum umræðum öðruvísi en að koma að að minnsta kosti tveimur athugasemdum við frumvarpið. Ég tel að sá sé vinur sem til vamms segir og ég tel mér skylt að gera það vegna þess að ég meina það innilega að hér er ekki rétt að staðið.

Í 6. gr. frumvarpsins, lið 7.7 stendur:

„Að greiða hlut ríkisins í undirbúningskostnaði Austurhafnar TR sem stofnað var á grundvelli samnings við Reykjavíkurborg um rekstur og byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík.“ Þetta er í 6. gr. En í dag var útbýtt frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2006 og þar kemur fram að ætlaðar eru 150 millj. kr. inn í fjárlögin 2006 einmitt vegna þessarar sömu byggingar tónlistar- og ráðstefnuhúss. Nú ætla ég að segja, hæstv. forseti, við hæstv. fjármálaráðherra að þetta eru vinnubrögð sem ganga ekki. Það er ekki hægt að afgreiða svona samning upp á milljarða og aftur milljarða ár eftir ár — þetta er undir: Heimildir, 6. gr. — og taka það svo inn í fjáraukalög haustið eftir. Það gengur ekki. Ég vil því benda hæstv. fjármálaráðherra á að ef það er svona eindreginn vilji minnar ágætu ríkisstjórnar að leggja fé í þetta fyrirtæki, sem ég hef allar efasemdir um, þá liggur það alveg nákvæmlega fyrir að það er ekkert annað að gera en að leggja samninginn fyrir Alþingi, að sjálfsögðu. Þannig ber mönnum að vinna og ég ætlast til þess að þannig sé gert og ég trúi því að mín ágæta ríkisstjórn muni gera það.

Í öðru lagi, herra forseti, langar mig til að vekja athygli þingheims á einu atriði varðandi þetta frumvarp til fjárlaga. Það eru útgjöld utanríkisráðuneytisins, sérstaklega tveir liðir sem þar koma fram. Í fyrsta lagi er ætlunin að hækka framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um 266 milljónir. Ég ætla að hin mikla hækkun sem varð í fyrra sé þannig að hið góða fyrirtæki, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, eigi fullt í fangi með að eyða þeim peningum. Ég veit að þar eru ábyrgir menn við stjórn og þeir gera sér grein fyrir að það þarf mikinn og mjög vandaðan undirbúning til að tryggja að þessir peningar komi að gagni. Hörmulegar eru sögurnar og fréttirnar og þekking manna frá ýmsum löndum um það hvernig þróunaraðstoð hefur misfarist. Ég er því með efasemdir um þetta og spyr: Hvernig stendur á þessu örlæti?

Næsti liður er þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi en sá liður hækkar um 334,8 millj. kr. Samtals nemur hækkunin á þeim lið um 600 millj. kr. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hvað veldur þessu mikla örlæti? Hvað hefur komið yfir okkur að við hækkum þennan lið allt í einu um 50%? Við hækkum hann um nákvæmlega 50%, það er tiltekið hér, úr 658 milljónum í 993. (Gripið fram í.) Þetta er liðurinn þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi. Það hefur enginn sagt mér frá því í þessu liði sem við erum saman í, ég og hæstv. fjármálaráðherra, að þetta örlæti stæði til og mér er það töluverð spurn hvað valdi þessu. Ég velti því fyrir mér hvernig það megi vera að við ætlum að fara að sáldra svona miklum peningum allt í einu núna. Þá dettur mér í hug hvort það gæti verið, herra forseti, að það eigi eitthvað skylt við það að við erum í framboði til öryggisráðsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Gæti það nú bara átt sér stað að eitthvert samhengi væri þarna á milli? (Gripið fram í.) Ég læt mér detta það í hug, virðulegi forseti, að svo sé. En eins og ég hef áður sagt og bent á, þá ætla ég að kenndirnar og hugsunin á bak við það að við buðum okkur fram til öryggisráðsins væri ekki ósvipuð þeim hugrenningum sem ég veit að fóru gegnum kollinn á litla froskinum þegar hann sá stóra bolann á tjarnarbakkanum og sumir muna nú hvernig það endaði allt saman. En mig langar til að vita þetta og ég tel rétt að vekja athygli á þessu. Þetta er dálítið athyglisvert.

Að öðru leyti, herra forseti, hefur þessi umræða meira og minna snúist um virkjanamál, sem er út af fyrir sig gleðilegt. Ég vil upplýsa og veit það úr mörgum áttum að myljandi hagnaður er af álframleiðslu í dag. Verðið er um 2.500 dollarar. Það vita allir sem vilja vita að raforkuverðið fyrir austan er rétt í kringum 30 sent, sem er mjög hagstætt og fínt. Þetta stendur því allt mjög vel. Ég er ekki að upplýsa nein leyndarmál, það er rétt að alþjóð viti þetta.

Ég vil nefna það að ég var á mánudaginn viðstaddur opnun Norðuráls á Grundartanga. Það var gríðarlega skemmtileg samkoma, mjög ánægjuleg. Norðurál hefur byggst mjög hratt upp og hefur haft veruleg áhrif á byggðaþróun á Vesturlandi, mjög jákvæða og mjög skemmtilega. Ástæða er til að vera þakklátur fyrir það. Ég hitti í fyrsta skipti þann merkilega mann, Kenneth Peterson, ákaflega athyglisverður norskættaður Bandaríkjamaður. Ég hitti líka forráðamenn Norðuráls, þessa amerísku, og átti við þá skemmtilegar viðræður. Þeir sögðu mér að þeir hefðu mikinn áhuga á að stækka verksmiðjuna á Grundartanga. Það þótti mér vænt um að heyra og það er ástæða fyrir alla sem búa á Vesturlandi að fagna einmitt þessu því þetta er mjög hagstætt íslensku samfélagi ef við getum farið svona í þessi mál, eins og Norðurál hefur haft forustu um, að gera þetta í áföngum.

Þetta vildi ég segja, virðulegi forseti, í lokin um leið og ég fagna því að menn séu að átta sig á því í hvaða óefni mótmælaalda sem menn hafa reynt að reisa gegn framkvæmdum á Íslandi er komin. Við verðum að átta okkur á því að þessi þjóð á mikla framtíð. Í iðrum jarðar, fossunum og vötnunum liggja mikil verðmæti. Orkuverð er hækkandi í heiminum. Þetta mun skapa Íslandi mjög mikil og glæsileg tækifæri á komandi árum.