133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[18:54]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins fáein orð í lok þessarar umræðu sem hefur að mörgu leyti verið mjög fróðleg. Það hefur verið fróðlegt að hlýða á málflutning talsmanna Framsóknarflokksins, það hefur verið nánast samfelldur lofsöngur um stóriðjustefnuna. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tekið undir í þessum söng. Það gerði síðast hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sem sagði okkur frá óskaplega skemmtilegu hófi sem hann hafði nýlega verið í með fulltrúum álfyrirtækja sem vildu stækka og láta virkja meira í sína þágu. Þetta hefur einkennt málflutning stjórnarsinna hér en athygli hefur vakið hve mjög þeir hafa forðast að ræða forsendur fjárlaganna. Þá er ég að horfa til viðskiptahallans, til skuldastöðu þjóðarbúsins og hvert stefnir í þeim málum.

Dagurinn hófst á því að við ræddum um vaxandi ójöfnuð í íslensku þjóðfélagi. Ég gerði þá grein fyrir því að ég teldi hann birtast á þrennan hátt. Í fyrsta lagi vaxandi tekjumismunun, þeim fjölgaði sem hefðu miklar tekjur og ofurtekjurnar yrðu stöðugt hærri en að sama skapi fjölgaði þeim sem ættu í erfiðleikum með að láta enda ná saman. Stjórnarsinnar hafa bent á að kaupmáttur allra hafi aukist. Við teljum svo ekki vera, að þeir sem eigi í erfiðleikum með sína heilsu eða séu að koma þaki yfir höfuðið eigi erfiðar nú en þeir höfðu áður. Þetta er eitt birtingarform aukins ójafnaðar í íslensku þjóðfélagi.

Ójöfnuðurinn birtist einnig í því hvernig skattgreiðendum er mismunað. Ef fólk aflar tekna með launavinnu greiðir það mun hærri skatta en þeir gera sem afla tekna í gegnum fjármagnið. Fjármagnstekjurnar er skattlagðar mun lægra.

Í þriðja lagi er ójöfnuðurinn og mismununin í þjóðfélaginu á milli byggðarlaga og þá einnig á milli ríkis og sveitarfélaganna almennt. Ríkissjóður hefur dafnað en sveitarfélögin hafa mörg átt í erfiðleikum.

Það sem við höfum verið að benda á núna og á undanförnum árum er að menn skyldu fara varlega í að gleðjast um of yfir bættum hag ríkissjóðs því þar kann ekki allt að vera reist á bjargi heldur hugsanlega sandi, því miður, því að hagur ríkissjóðs hefur vænkast bæði með sölu arðbærra ríkiseigna og einnig vegna þess sem kallað hefur verið þensluskattar, að því meiri lán sem við tökum í útlöndum, því meira sem við neytum, því meiri velta sem er í þjóðfélaginu, því meiri eru tekjur ríkissjóðs. Að hluta til eru þetta þensluskattar sem kallaðir eru og eru ekki til frambúðar, eru ekki varanlegir. Þess vegna vildi Vinstri hreyfingin – grænt framboð fara varlega í öllum tilboðum og yfirboðum sem fram fóru fyrir síðustu kosningar um stórfelldar skattalækkanir. Við höfum farið varlega í þeim efnum.

Spurningin snýst síðan um hvað menn vilja gera til að bregðast við þessum vanda sem ég hélt að væri óumdeildur, en er talsvert umdeildur eins og við höfum heyrt á umræðum í dag. Sumir viðurkenna ekki að ójöfnuður sé í þjóðfélaginu og að hann hafi farið vaxandi. Hvað vilja menn gera?

Stjórnarandstaðan sameinaðist um það í upphafi þingsins að leggja fram frumvarp sem miðar að því að bæta stöðu lífeyrisþega og öryrkja, bæta stöðu þeirra hópa sem standa lakast að vígi í þjóðfélaginu. Þetta er forgangsmál okkar og um það sameinaðist stjórnarandstaðan, allir stjórnarandstöðuflokkarnir.

Hvað varðar mismunun sem sprottin er af ólíkum skattheimtuleiðum þá höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði talað fyrir því að hækka fjármagnstekjuskatt. Við þessu hafa menn varað og sumpart með ágætum rökum. Sagt að því hærri skattar sem lagðir eru á fjármagnið því meiri hætta sé á því að fjármagnið streymi úr landi og á önnur mið. Um þetta hafa ríki OECD verið að reyna að sameinast, að koma í veg fyrir undirboð. Að koma í veg fyrir samkeppni velferðarkerfanna þannig að þau grafi hvert undan öðru. Þess vegna hafa OECD-ríkin í sameiningu verið að reyna að uppræta skattaparadísir. Íslenska ríkisstjórnin fékk tiltal út af því að gerast brotleg við ákvæði sem höfðu verið samþykkt á vettvangi OECD.

Þetta er umræða sem á eftir að fara fram síðar í haust þegar við tölum fyrir frumvarpi, sem við höfum reyndar lagt fram, um hækkun fjármagnstekjuskatts. En aðeins til að botna þá umræðu að þessu sinni að enda þótt það skuli viðurkennt að takmörk séu fyrir því hve hátt megi fara með skattana ef við ætlum að halda skattstofninum, þá snýst málið um þetta: Við erum öll sammála um að afla þarf ríki og sveitarfélögum skatta, skatttekna. Spurningin er með hvaða hætti við gerum það og hvort við gerum það á réttlátan eða ranglátan máta. Við segjum að skattbyrðunum í þjóðfélaginu sé ekki réttlátlega skipt, launafólkið er látið greiða óhóflega mikið, fjármagnseigendurnir, þeir sem afla tekna með fjármagnseignum sínum, sleppa óþarflega vel frá þessum skiptum. Umræðan á að snúast um þetta, alla vega í bland, um réttlæti í skattheimtunni. Varðandi þriðja atriðið sem ég nefndi, þ.e. mismunun á milli ríkis og sveitarfélaga, þá höfum við lagt fram frumvörp, talað fyrir þingmálum sem ganga út á að rétta hlut sveitarfélaganna.

Hæstv. forseti. Ég vildi síðan í lokin taka undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni varðandi fjárausturinn í kosningabaráttu ríkisstjórnarinnar, gæluverkefni fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og núverandi utanríkisráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, um að tryggja okkur tveggja ára setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna fyrir mörg hundruð milljónir króna. Ég hef margoft talað gegn þessu og talið að þessum fjármunum væri betur varið í alþjóðasamvinnu en í öðrum farvegi. Við getum látið gott af okkur leiða í alþjóðasamvinnu á margvíslegan hátt, t.d. í rannsóknum á ýmsu sem lýtur að sjávarútvegi, hafsbotninum. Reyndar hefur talsvert fé verið látið af hendi til slíkra rannsókna. Við hefðum getað gert betur í þeim efnum. Við gætum gengið lengra í að styðja starf á vettvangi FAO. Það tengist hagsmunum okkar jafnframt því sem ég held að við gætum látið gott af okkur leiða. Ég held að ef þessir fjármunir, hundruð milljóna, væru veittir til rannsókna vísindamanna sem sinna rannsóknum af því tagi sem ég vísaði til, þá værum við að verja þessum peningum á miklu markvissari hátt og gerðum tvennt í senn: Að láta gott af okkur leiða á alþjóðavettvangi og þjóna hagsmunum okkar betur en gert er með þessum fráleita hætti.