133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:02]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Herra forseti. Rétt í lokin er rétt að fara yfir nokkur atriði sem hafa orðið út undan í þeim tveimur ræðum mínum sem ég hef haldið. Í fyrsta lagi er rétt að fjalla örlítið um það agaleysi sem ég nefndi nokkuð í fyrstu ræðu minni og ég tók eftir að bæði hv. þm. Birkir J. Jónsson og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fjölluðu nokkuð um og tóku að hluta til undir þau aðvörunarorð mín. Ég verð þess vegna að vera örlítið bjartsýnn þó að reynslan segi mér að kannski sé ekki nú líklegt að mikil breyting verði á störfum fjárlaganefndar hvað þetta varðar, en ég held að það sé nauðsynlegt að fara örlítið yfir þessi mál þannig að það liggi alveg fyrir hvað það er sem við erum fyrst og fremst að ræða um.

Það er alkunn staðreynd að það eru auðvitað ýmsar stofnanir þannig staddar í ríkiskerfinu að þegar fjárlög eru samþykkt fyrir næstkomandi ár þá er raunverulega stór hluti fjárveitinga til þeirra upp urinn eða stór hluti búinn vegna þess að viðkomandi stofnun hefur keyrt fram yfir og þá töluvert fram yfir þau 4% sem er svona hið venjulega viðmið. Á sama tíma eru aðrar stofnanir sem eiga töluvert í sjóði og er þar af leiðandi verið með fjárlögum að samþykkja til þeirra mun meira fjármagn en talið er að kosti að reka viðkomandi stofnanir.

Vandamálið er að um allt of langan tíma hefur ekki verið gert neitt í því að kanna hvað er að hjá þessum stofnunum. Er vanáætlað fyrir þeirri þjónustu sem stofnuninni er ætlað að sinna eða er eitthvað annað að? Meðan þetta er ekki skoðað er auðvitað erfitt að bregðast við. Ég hef leyft mér að halda því fram að ástæðan fyrir því að þetta er ekki skoðað skipulega og yfir þetta farið sé í raun og veru sú að í kerfinu sé það viðurkennt að fjárlögin séu ekki nægjanlega tengd raunveruleikanum og þess vegna séu fjárlögin ekki sá grunnur sem hægt er að byggja á. Sem dæmi má nefna ef veita þyrfti forstöðumanni áminningu, sem gæti verið eðlilegt ef forstöðumaðurinn vegna slælegra starfa fer með stofnun sína fram yfir ár eftir ár ef rétt hefur verið áætlað fyrir þeirri starfsemi sem menn vilja að stofnunin sinni. Ég held hins vegar að þetta sé ekki gert því það er vitað að það er áætlað vitlaust.

Ég man eftir mjög glöggu dæmi úr síðustu skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í sumar þar sem kom í ljós t.d. að sýslumannsembættið á Keflavíkurflugvelli hafði til nokkuð margra ára farið töluvert fram úr fjárlögum. Í skýrslunni var því hins vegar haldið fram að miðað við skoðun Ríkisendurskoðunar væri ekkert að rekstri viðkomandi embættis og það væri jafnvel á margan hátt til fyrirmyndar og það væri líka alveg ljóst að ráðuneyti viðkomandi embættis væri það fullljóst að ýmis verkefni hefðu verið sett á embættið án þess að fjárveitingar hefðu fylgt. Það er auðvitað algjörlega óviðunandi að þannig sé að verki staðið og ég trúi því, eins og fram hefur komið, að mýmörg slík dæmi séu í kerfinu og það er bagalegt að svo sé. Það er af þessum ástæðum sem Ríkisendurskoðun kemur ár eftir ár með ábendingar um að á þessu verði að taka. Stofnunin hefur reyndar bent á það í skýrslu um framkvæmd fjárlaga í mörg ár og sérstaklega í fyrra, það kom skýrast fram í skýrslunni frá því í fyrra og í skýrslunni í sumar er vísað yfir í skýrsluna frá því árið 2005. En þar segja þeir að það geti hreinlega verið þannig að það væri í anda stjórnvalda að hafa þetta svona. Það gæti verið að það hentaði stjórnvöldum að vera ekkert að breyta þessu vegna þess að með því geti menn lagt fram falleg fjárlög ár eftir ár. En í raun og veru er framkvæmdarvaldið með þessu að taka sér fjárveitingavald og það er auðvitað grafalvarlegt mál og auðvitað rétt, þó að ég hafi ekki tíma til þess að fara neitt yfir ágæta grein sem ég sá í Morgunblaðinu í dag eftir hv. þm. Bjarna Benediktsson sem einmitt fjallar um að það þurfi að styrkja stöðu Alþingis, styrkja löggjafarvaldið vegna þess að framkvæmdarvaldið hefur í raun og veru allt of sterka stöðu. Í þessu samhengi er rétt að minnast þess að þegar Þjóðhagsstofnun var niður lögð var það rætt töluvert hér á þinginu hvernig við í fjárlaganefnd gætum styrkt stöðu okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu þegar Þjóðhagsstofnun væri farin. Þá var rætt um að það þætti eðlilegt að hér yrði sett upp einhvers konar hagdeild, kannski of stórt orð fyrir ekki marga menn, en a.m.k. að fjárlaganefnd fengi aðgang að sérfræðingum til þess að geta farið yfir ýmis mál eða látið vinna fyrir sig ýmis mál sem nefndinni þætti ástæða til. Því miður hefur ekki orðið af þessu þrátt fyrir það að þáverandi forsætisráðherra Davíð Oddsson hafi látið líklega í umræðunum um að sér þætti a.m.k. ekki óeðlilegt að slíkt yrði skoðað alvarlega.

Herra forseti. Ég held að það sé rétt að vitna bara orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í fyrra þannig að það fari ekkert á milli mála að þetta er ekki bara skoðun okkar fulltrúa Samfylkingarinnar.

Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Reyndar má spyrja hvort stjórnvöld hafi í raun nokkurn áhuga á að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur á framkvæmd fjárlaga þar sem það geti bara hentað ágætlega. Í fjárlögum megi þannig sýna aðhald með ríkisútgjöldum enda þótt ljóst sé að raunveruleg útgjöld verði í mörgum tilvikum hærri.“

Þetta var orðrétt tilvitnun í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 2004.

Skömmu síðar segir, með leyfi forseta:

„Strangt aðhald með ríkisfjármálum sé ekki líklegt til vinsælda á vettvangi stjórnmálanna, sérstaklega ekki þegar auknar tekjur ríkissjóðs vegna uppsveiflu í hagkerfinu geri gott betur en að mæta meiri útgjöldum.“

Herra forseti. Ég held að þarna sé skýringin kannski komin vegna þess að nú um nokkuð langt skeið höfum við lifað þá tíð að hagvöxturinn hefur verið slíkur að tekjuaukinn í ríkissjóði hefur verið fyrirséður það mikill að hann mundi dekka og jafnvel á stundum betur en það hin auknu útgjöld sem meira og minna lágu fyrir þegar fjárlög voru samþykkt. Þetta er hins vegar grafalvarlegt mál og kominn tími til að eitthvað verði gert í því og ég sagði hér í byrjun ræðu minnar að þeir hv. þingmenn formaður og varaformaður fjárlaganefndar hefðu ýjað að því í málflutningi sínum að þetta væri grafalvarlegt hlutverk fjárlaganefndar. En ég geri mér þó mátulegar vonir um að eitthvað verði reynt til þess, a.m.k. á haustdögum, ég hef fullan fyrirvara á því að úr þessum ræðustóli hefur nú ýmsu verið lofað í þeim efnum án þess að nokkuð hafi gerst. Eins og ég hef nokkrum sinnum sagt bæði í ræðu og í andsvörum í dag þá hefur það eiginlega verið megineinkenni meiri hluta fjárlaganefndar að virka þar sem stimpill fyrir ríkisstjórnina. Þetta er auðvitað alvarleg ásökun á hendur meiri hluta fjárlaganefndar en því miður er ekki hægt að sleppa því að nefna þetta ítrekað vegna þess hve slælega meiri hlutinn hefur á stundum staðið í ístaðið.

Það er nefnilega þannig að þrátt fyrir það, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði, að menn væru í sama liði þá hafa menn sem alþingismenn miklum skyldum að gegna í því að verja hlut löggjafans. Og það verður að segja alveg eins og er og það er hugsanlega hluti af þeirri skýringu að þessir stjórnarflokkar hafa starfað það lengi saman að allt virðist vera orðið smurt og í einhverri fastri rútínu og að það sé hreinlega ekki liðið í liðsskipaninni að menn geti leyft sér athugasemdir sem oft er á tíðum er full ástæða til að vera með.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefndi sjálfur í ræðu sinni hér áðan a.m.k. tvö dæmi, annað þeirra sérstaklega áberandi sem hv. þingmaður hefur reyndar nefnt áður og hefur verið tekið aðeins upp í fjárlaganefndinni og gæti út af fyrir sig verið ákveðinn prófsteinn á það hvort einhver meining er á bak við orðin. En það er alveg ljóst að sú framkvæmd hér við höfnina sem hv. þingmaður nefndi, þá er afar óeðlilegt að fjármunir í hana séu afgreiddir hér ár eftir ár í gegnum 6. gr. og það hlýtur að vera eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra tilkynni okkur í lokaræðu sinni að samningurinn sé væntanlegur hér í einhverri mynd til afgreiðslu í þingsalnum.