133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:13]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það hafa verið ágætar umræður í dag um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007, mestan part málefnalegar og ég þakka fyrir það. Sérstaklega hefur verið fjallað um forsendur fjárlaga. En í þeim efnum eins og svo oft áður lítur sínum augum hver silfrið, sérstaklega þar sem oft er um áætlaðar stærðir að ræða og jafnvel spár inn í framtíðina og er ekkert óeðlilegt að menn ræði þau atriði sérstaklega.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi OECD og tiltal frá OECD eða einhverjar OECD-samþykktir. Ég kannast ekki við þær en við gætum kannski fundið betur út úr því í sameiningu síðar. Hann nefndi einnig til öryggisráðið. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson nefndi það líka í sama samhengi við þróunarmálin. Ég nefndi hins vegar þróunarmálin sérstaklega í framsöguræðu minni þar sem verið er að auka fjármuni til þróunaraðstoðar í samræmi við áætlun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt. Þessir fjármunir eru ekki tengdir framboðinu til öryggisráðsins nema á óbeinan og almennan hátt því auðvitað skiptir máli í þessu samhengi hversu virk við erum í alþjóðastarfi og þróunarmálin eru auðvitað hluti af því.

Hv. þingmenn Einar Oddur Kristjánsson og Einar Már Sigurðarson nefndu Austurhöfn og fjárveitingar til Austurhafnar sem eru í 6. gr. frumvarpsins, en jafnframt eru tillögur um fjárveitingar til Austurhafnar í fjáraukalögunum. Einhverra hluta vegna skildist mér á hv. þingmönnum að þeir tengdu þetta líka að einhverju leyti við heimildir til samninga um byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins. En þetta eru auðvitað tvö mál. Annars vegar er um að ræða rekstur og fjárveitingar til undirbúningsfélagsins Austurhafnar. Þær hafa undanfarin ár verið með tvennum hætti, annars vegar í gegnum fjárlagalið sem nú stendur þannig að á honum er afgangur. Það er heimild í 6. gr. þessa árs til þess að greiða kostnað vegna Austurhafnar af heimildarlið en það er hins vegar lagt til að það verði greitt sérstaklega inn á lið Austurhafnar en þar með verði heimildarliðurinn ekki notaður til að greiða þann kostnað sem til hefur fallið að undanförnu. Síðan er beiðni um heimild í 6. gr. í frumvarpinu fyrir 2007 um áframhaldandi möguleika til að greiða kostnað vegna Austurhafnar, þ.e. undirbúningsfélagsins. Hins vegar var samningurinn um tónlistar- og ráðstefnuhúsið gerður á grundvelli annars heimildarákvæðis í 6. gr. fjárlaga sem samþykkt var í fjáraukalögum fyrir árið 2005 og tengist þar með ekki þeim liðum sem hér voru nefndir.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur í tvígang í umræðunni kallað meiri hluta fjárlaganefndar stimpil ríkisstjórnarinnar. Þetta er litríkt líkingamál. Það er meira að segja hægt að hafa ýmsa liti á stimpilpúðunum ef menn vilja. En ég held að hv. þingmaður verði að hafa í huga að meiri hluti fjárlaganefndar, fulltrúar í meiri hlutanum eiga sæti í þingflokkum stjórnarflokkanna og áður en fjárlagafrumvarpið er lagt fram hefur það farið fyrir þingflokkana og verið samþykkt. Það er reyndar svo með öll önnur stjórnarfrumvörp þannig að ekkert er óeðlilegt við það að meiri hlutinn styðji frumvarp sem hann hefur áður samþykkt þó að eðlilega geti orðið breytingar á fjárlagafrumvarpinu í meðförum Alþingis ekkert síður en öðrum frumvörpum. Þá ber á það að líta að fjárlagafrumvarpið hefur ekki farið fyrir þingflokka minni hlutans sem tilheyrir stjórnarandstöðunni. Þar af leiðandi hafa þeir ekki haft tækifæri til að hafa áhrif á efni þess og eðlilega er frumvarpið samið á grundvelli stjórnarsáttmála stjórnarflokkanna og í takt við stefnu þeirra en ekki endilega í takt við stefnu stjórnarandstöðuflokkanna þó auðvitað gæti það gerst endrum og sinnum að þar séu hlutir sem þeir séu sáttir við líka. Ég held að menn verði að hafa þetta í huga þegar verið er að fjalla um þetta á þennan hátt. Þar af leiðandi er ekki laust við að ósanngjarnrar gagnrýni gæti, að mínu mati, hjá hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að svara fleiri brennandi spurningum hér í dag við lok þessarar umræðu. Það munu auðvitað koma upp atriði í meðförum þingsins hvað frumvarpið varðar sem eðlilegt geti verið að leitað sé til ráðuneytisins með að finna svör við og sem fyrr er sjálfsagt að verða vel við því og eins og ég sagði í framsöguræðu minni þá óska ég eftir góðu samstarfi við nefndina og að það takist að afgreiða frumvarpið á tilsettum tíma í samræmi við starfsáætlun þingsins eins og undanfarin ár.