133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þó ég hafi sagst ekki kannast við það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan þá var ég ekki að vefengja eða reyna að segja að hann væri að fara með rangt mál. Ég held hins vegar eftir að hafa heyrt andsvar hans að þá sé hann út af fyrir sig í grunninn að fara rétt með. Það var verið að reyna að setja hér upp löggjöf um sérstaka skattalega meðferð. Nafnið á löggjöfinni kemur ekki alveg upp í hugann. En tiltalið sem stjórnvöld fengu var ekki frá OECD heldur frá ESA, ef ég man þetta rétt. Það er alveg ástæðulaust að fara lengra út í þetta. Við getum fundið út úr því hvað er réttast í þessu. En það er hins vegar líka rétt að það var í gangi vinna á vegum OECD um að vinna gegn skattaskjólum og í þeirri vinnu hefur Ísland tekið fullan þátt. Við höfum á þeim forsendum meðal annars átt viðræður við Ermarsundseyjarnar og jafnframt verið í samstarfi við aðrar Norðurlandaþjóðir í þessu efni. Þetta var meðal annars eitt af umræðuefnunum á fundi fjármálaráðherra Norðurlandanna í vor. Ég held að þetta sé tvö mál sem þarna er verið að blanda saman en óþarfi er að gera það að einhverju deilumáli. Við finnum út úr því.