133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[19:32]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það er eðlilegt að leitað sé heimilda fyrir samningum eins og hv. þingmaður nefndi, enda var það líka gert í fjáraukalögum ársins 2005. Ef ég man rétt var það í upprunalega fjáraukalagafrumvarpinu þannig að það hefur farið í gegnum þrjár umræður í þinginu og meðferð í fjárlaganefnd. Ég man að í textanum sem fylgdi með var gert grein fyrir þeim upphæðum sem þarna er um að ræða þannig að þingheimur átti ekki að velkjast í neinum vafa um hvað væri að gerast og hvað væri verið að samþykkja, enda er það ekkert öðruvísi en er um aðrar ámóta og jafnvel enn stærri ákvarðanir í fjármálum ríkisins sem teknar eru á grundvelli einnar línu í 6. eða 7. gr. fjárlaganna.