133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:31]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Umræða um leyniþjónustustarfsemi fyrri ára á vissulega rétt á sér. Ég tel rétt að draga staðreyndir í þeim efnum fram í dagsljósið enda hefur Alþingi beitt sér fyrir því að skapa grundvöll fyrir þeirri vinnu með nýsettri löggjöf. Ég tek hins vegar undir það að við megum ekki festast svo í fortíðinni að andvaraleysi ríki um framtíðina í þessum efnum þannig að við gleymum, eða látum undir höfuð leggjast, að bregðast við hinni alvarlegu stöðu sem uppi er og snerta þær plágur sem hrjá okkur nú og aðrar þjóðir: hryðjuverkaógn, innflutning fíkniefna, vændi og alþjóðlega glæpastarfsemi.

Það er mjög áríðandi í þessari umræðu að gera mikilvægan og skýran greinarmun á ytri vörnum og innra öryggi. Herlaus þjóð hefur fáa kosti aðra en semja um varnir sínar við aðrar þjóðir. Það gerðu íslensk stjórnvöld árið 1951 með tvíhliða samningi við Bandaríkin sem nú hefur verið áréttaður með nýgerðu varnarsamkomulagi.

Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu árið 1949, og þær gagnkvæmu varnarskuldbindingar sem felast í 1. gr. Atlantshafssáttmálans, hefur einnig tryggt ytri varnir Íslands. Það er og verður áfram mikilvægt að tryggja þessar ytri varnir landsins.

Eftir að heimsmyndin breyttist með falli Berlínarmúrsins og Sovétríkjanna og fjölgun hryðjuverkaárása hin seinni ár hafa þjóðir heims hert ráðstafanir sínar hvað varðar innra öryggi þegna sinna. Ísland er ekki lengur einangruð eyþjóð sem getur staðið álengdar og látið sig þessa þróun litlu varða. Komur erlendra skipa hingað til lands telja vel á annað þúsund á ári hverju. Alþjóðaflugvöllurinn í Keflavík tengir Evrópu og Norður-Ameríku. Umferð um völlinn eykst hröðum skrefum og er talin í milljónum manna með ferðum sem nema tugum á dag með tengiflugi um víða veröld. Fíkniefnainnflutningur hefur því miður aukist þrátt fyrir að mjög gott starf sé unnið í eftirliti í þessum efnum og fullyrt er að skipulögð alþjóðleg glæpastarfsemi hafi teygt anga sína hingað til lands. Það eru vissulega uggvænleg tíðindi og við þessu þarf að bregðast.

Við megum ekki undir neinum kringumstæðum festast í pólitískri þrætubók eða andvaraleysi gagnvart þessum málum en ég neita því ekki að stundum hefur mér þótt hálfkæringur ríkja í þessari umræðu.

Ég er þeirrar skoðunar að þræða þurfi hinn gullna meðalveg í þessum efnum sem öðrum. Leyniþjónusta að erlendri fyrirmynd hugnast mér ekki. Ég vil sérstaklega undirstrika það. Mér þykir þó augljóst að auka þurfi lögheimildir löggæsluaðila hér á landi svo að þeir geti sinnt þessu innra öryggi okkar.

Í þessum efnum er þó sérstaklega áríðandi að ganga ekki svo langt að mannréttindi séu brotin. Við höfum skuldbindingar í þeim efnum og það er grundvöllur fyrir sjálfstæðu samfélagi og í samræmi við siðferðiskennd okkar að hafa mannréttindi og persónuvernd ætíð í heiðri.

Við hljótum að líta til nágrannaþjóðanna í þessum efnum og þess sem almennt tíðkast, t.d. hjá öðrum Norðurlandaþjóðum, og styrkja enn frekar það alþjóðlega samstarf sem við eigum í, t.d. á vettvangi Schengen. Það er sannfæring mín að sá aðgangur að upplýsingakerfi sem Schengen-samningurinn færði okkur á sínum tíma sé afar mikilvægur þegar rætt er um innra öryggi. Þá gerir nýgert samkomulag við Bandaríkin okkur kleift að auka getu okkar á sviði innra öryggis, ekki síst með miðlun upplýsinga.

Hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir hugmyndum í þessum efnum sem ætlunin er að vinna með á næstunni og ég undirstrika mikilvægi þessara mála. Það þarf að ræða þau af alvöru og yfirvegun. Þetta er þess efnis að á því er full þörf.