133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[16:44]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Lengi hefur verið á sveimi orðrómur um að í landinu hafi verið stundaðar hleranir á vegum stjórnvalda, persónunjósnir, í reynd starfsemi leyniþjónustu. Nú hefur fengist staðfesting á því að svo hafi verið. Við höfum fengið það staðfest í fyrsta lagi að stundaðar hafi verið hleranir af pólitískum toga í þrennum skilningi. Í fyrsta lagi hafi verið teknar ákvarðanir um hverjir skyldu hleraðir á grundvelli stjórnmálaskoðana þeirra. Hér er um að ræða alþingismenn, hér er um að ræða forsvarsmenn í verkalýðshreyfingu, hér er um að ræða blaðamenn, hér er um að ræða hernámsandstæðinga og friðarsinna, hér er um að ræða fólk úr heimi menningarinnar.

Í öðru lagi hefur þetta verið pólitísk starfsemi í þeim skilningi að þeir sem hafa verið viðtakendur upplýsinganna hafa þurft að hafa á sér tiltekinn pólitískan lit. Það er fyrst og fremst litur Sjálfstæðisflokksins en í sumum tilvikum einnig litur Framsóknarflokks og Alþýðuflokks.

Í þriðja lagi er athyglisvert að íhuga hvar markalínurnar hafa legið. Þær liggja fyrst og fremst um afstöðu til hernaðarbandalagsins NATO. Annars vegar hafa verið fylgismenn þessa bandalags og hins vegar gagnrýnendur, efasemdarmenn og andstæðingar NATO og þess að í landinu væri her á friðartímum. Þeir síðarnefndu hafa iðulega staðið utan við lög og rétt. Það er nefnilega ekki rétt hjá hæstv. dómsmálaráðherra að alltaf hafi verið lagastoð eða dómsúrskurður fyrir hlerun. Hvað fyrra atriðið áhrærir hefur það komið fram hjá sagnfræðingum að á fjórða áratug síðustu aldar hafi þessa lagaheimild skort, t.d. í verkfalli vörubílstjóra árið 1935. Varðandi dómsúrskurðinn mun hann einnig hafa skort við hleranir eftir atburðina hér við Alþingishúsið 30. mars 1949. Þá kom orðsending, samkvæmt Guðna Jóhannessyni sagnfræðingi, frá dómara um að hlerunum skyldi hætt daginn eftir á miðnætti. En þeim var haldið áfram að eindreginni ósk og kröfu ríkisstjórnarinnar. Með öðrum orðum, pólitískum hlerunum var haldið áfram.

Hæstv. forseti. Í þeim umræðum sem fram hafa farið í landinu á undanförnum vikum og mánuðum hefur þjóðin fengið innsýn í liðinn tíma, þá hatrömmu deilu sem hér geisaði um áratugaskeið og þær ofsóknir sem margt fólk þurfti að sæta, hrakið úr starfi vegna skoðana sinna og í sumum tilvikum svipt helgustu mannréttindum, kosningarrétti. Við höfum fengið innsýn í tíma þar sem pólitísku valdi var misbeitt og þar sem dómsvaldi var einnig misbeitt. Þar vísa ég í heimildir til hlerana og ég vísa þar í dóma sem kveðnir voru upp, t.d. í kjölfar atburðanna við Alþingishúsið 30. mars 1949 þegar menn voru sviptir lýðréttindum, kosningarrétti á grundvelli ljúgvitna sem þeir voru bornir.

Ég tek undir með þeim sem hafa viljað horfa inn í framtíðina. En til þess að við getum það, og það eigum við eindregið að gera, þurfum við að hreinsa upp hið liðna. Þess vegna segjum við: Allt upp á borðið. Fyrstu skrefin hafa þegar verið stigin með þeirri nefnd sem skipuð var í sumar og með því að opna sagnfræðingum aðgang að gögnum á tilteknu árabili. Við viljum ganga enn lengra og opna þessi gögn öllum og að sjálfsögðu hlutaðeigandi aðilum. Það er rétt sem hæstv. dómsmálaráðherra sagði að þetta eru atburðir frá liðnum tíma, það er rétt. En á lífi er fólk sem var þátttakendur í þessum atburðum.

Til mín kom lögreglumaður fyrir helgina. Hann sagðist hafa verið hér í Alþingishúsinu 30. mars 1949. Sér hefði verið haldið innan dyra, sér hefði ekki verið treyst út á völlinn, út á Austurvöllinn vegna pólitískra skoðana sinna. Þetta fólk er enn á lífi. Þessir atburðir eru ekki fjær en svo. Og nú er krafan: Öll gögn upp á borðið.