133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

möguleg leyniþjónustustarfsemi á vegum stjórnvalda.

[17:05]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sú leynd sem enn þá hvílir yfir upplýsingum og upplýsingaöflun stjórnvalda á fyrri tíð hér á landi er með öllu óásættanleg. Þær aðferðir sem notaðar voru á að upplýsa og birta. Staðreyndirnar eiga að vera okkur ljósar. Okkur á að vera það ljóst hvernig að þessum málum var staðið á fyrri tíð og þó að það sé algjörlega rétt að hér sé að hluta til um sagnfræði að ræða þá er eðlileg og sjálfsögð sú krafa að upplýsa allt sem þessi mál varðar.

Það virðist sem svo að þeirra upplýsinga sem aflað var hér á landi hafi verið aflað með símahlerunum gagnvart einstaklingum sem stjórnvöldum á hverjum tíma fannst nauðsynlegt að vakta. Hverjir voru þetta? Þetta voru sjálfsagt sósíalistar, sem sumir kalla kommúnista, menn sem höfðu menntað sig í ríkjum sem töldust kommúnistaríki á þeim tíma, menn sem störfuðu jafnvel hér í verkalýðshreyfingunni, voru aktífir þar og vafalaust aðrir sem féllu kannski undir þá skilgreiningu að vera vinstri menn og þá harðir vinstri menn í skoðunum sínum. Þetta virðist vera það fólk sem, eftir þeim upplýsingum sem fyrir liggja, hafi verið beitt hlerunum og þetta fólk á að sjálfsögðu rétt á því að fá að vita allt um það hvernig að þessum málum var staðið. Sömuleiðis eiga ættingjar þessa fólks líka rétt á því að fá aflétt leynd af því hvort um feður þeirra eða afa var njósnað á þessum tímum. Það bætir á engan hátt stöðu okkar, hvað þá heldur þau verkefni okkar í framtíðinni sem við væntanlega þurfum að takast á við, ef yfir þessu máli hvílir leynd. Þó að ég geti verið sammála hæstv. dómsmálaráðherra því að við þurfum að horfa til framtíðar af ýmsum ástæðum varðandi öryggismál okkar og ýmislegt fleira þá tel ég að þessum — hvað eigum við að segja — trúnaði sem virðist vera haldið yfir þessum gögnum eigi að aflétta sem allra fyrst og það geri okkur vonandi framtíðina betri til þess að vinna hlutina eðlilega og forða okkur frá þeim mistökum sem við virðumst hafa stigið í fortíðinni að þessu leyti.

Ég held ég hafi ekki miklu fleiri orð um þetta mál. Þetta finnst mér vera meginmarkmið málsins, þ.e. að allar upplýsingar komi upp á borðið og að sérstaklega þeir sem fyrir þessu hafa orðið eigi að hafa forgang að því að fá að skoða allar þær upplýsingar sem snúa að þeim persónulega, vinum þeirra eða ættingjum.