133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:18]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu á þskj. 4 og felur sú tillaga í sér stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Tillagan er hluti af þeim málum sem stjórnarandstaðan leggur fram sameiginlega í upphafi þessa 133. löggjafarþings þó að saga hennar sé lengri.

Tillögutextinn er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að Þjórsárver, stærsta og gróðurríkasta votlendi á hálendi Íslands, skuli vernduð í heild sinni. Í því augnamiði skuli núverandi mörkum friðlandsins í Þjórsárverum breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna ásamt með Þjórsá og nærliggjandi svæðum að Sultartangalóni. Þá skuli unnið að því að hið stækkaða Þjórsárverafriðland verði tilnefnt inn á heimsminjaskrá UNESCO. Alþingi felur ríkisstjórn að hefja nú þegar nauðsynlegan undirbúning að framkvæmd ályktunarinnar svo að auglýsa megi hin nýju friðlandsmörk eigi síðar en vorið 2007.“

Þessa tillögu flytja auk mín hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Mörður Árnason, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson, allt hv. þingmenn sem sæti eiga í umhverfisnefnd Alþingis. Menn kunna að taka eftir því að í hópi stjórnarandstæðinga er einn stjórnarþingmaður, þ.e. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, en hann stóð með sömu þingmönnum að þessari tillögu á síðasta ári.

Það er kannski til marks um hve stuðningurinn við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og það að reyna að koma friðlandinu í Þjórsárverum inn á heimsminjaskrá UNESCO er að verða mikill að hér standa sameiginlega þingmenn úr öllum flokkum utan einum að þessari tillögu á Alþingi Íslendinga.

Baráttan um Þjórsárver er löng og ströng og ekki hægt að gera henni skil í stuttri ræðu. En þó má segja að á síðustu árum hafi vindar snúist í baráttunni því að bæði hæstv. núverandi umhverfisráðherra og fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra hafa gefið til kynna að nú kunni að verða breytingar á og að tillaga af þessu tagi nái fram að ganga. Það yrði sannarlega sögulegt og fagnaðarefni í þeim miklu átökum sem hafa staðið og oft verið hálfblóðug, vil ég eiginlega segja.

Náttúruverndarsamtök Íslands hafa kannað hug þjóðarinnar til stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum. Þau létu í árslok árið 2004 gera könnun á því hvernig þjóðin væri innstillt í þeim efnum og niðurstöður könnunarinnar sýndu að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar væru hlynntir stækkun friðlandsins.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason gerði grein fyrir sögu Þjórsárvera í bók sinni Draumalandinu, sem þjóðin hefur lesið frá því að hún kom út fyrr á þessu ári. Það er athyglisvert að Andri Snær segir um friðlandsmörkin í bók sinni að þau minni helst á landamæri í Afríku, þau séu dregin með beinum línum. Það er alveg rétt. Það veit það öll þjóðin að það voru virkjanahagsmunir sem réðu mörkum friðlandsins á sínum tíma og þau voru einungis málamiðlun á milli náttúruverndarsinna og hinna svokölluðu tæknimanna sem vildu virkja og gera risastór uppistöðulón í verunum. Sjónarmið tæknimannanna voru raunar á undanhaldi árið 1981 þegar friðlýsingin var auglýst og friðlandsmörkin dregin en þó ekki nægilega því að eftir að friðlandsmörkin voru ákveðin hefur baráttan um veitu í verunum haldið áfram.

Hugmyndin um að Þjórsárver eigi skilið sæti á heimsminjaskrá UNESCO kemur fyrir alvöru inn í umræðuna sumarið 2004. Þá fékk Landvernd tvo færa sérfræðinga, þá Roger Crofts og Jack D. Ives, sem báðir eru afar vel að sér um Þjórsárver og hafa rannsakað þau árum saman, til að skila Landvernd greinargerðum um málefni veranna, verndargildi þeirra og framtíðarsýn. Í greinargerðum þeirra beggja kemur fram að núverandi friðlandsmörk séu algerlega ófullnægjandi og að þeir telji nauðsynlegt að stækka friðlandið til mikilla muna svo verndun nái tilgangi sínum. Þá fjalla þeir báðir um möguleikana á því að Þjórsárver fái sess á heimsminjaskrá UNESCO. Þeir Crofts og Ives hafa báðir unnið með UNESCO og IUCN, Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum, við að meta umsóknir um skráningu svæða á þennan mikilvæga lista. Þeir hafa því mikla þekkingu og reynslu í þeim efnum. Það segir sína sögu að þeir skuli báðir telja að svæðið eigi skilið að um það verði fjallað á vettvangi heimsminjaskrárinnar og kannað verði til hlítar hvort það búi yfir þeim kostum sem gætu skipað því á heimsminjaskrá.

Í greinargerð með tillögunni er í stuttu máli farið yfir stöðuna núna, þ.e. frá því að úrskurður setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, um verin var kveðinn upp í janúar árið 2003. Það má segja að í hnotskurn sé málið þannig að Landsvirkjun hafi áfram sótt það fast að fá heimild til þess að reisa Norðlingaölduveitu með Norðlingaöldulóni neðst í verunum og jafnframt að fá í gegn setlón og veitulón sem úrskurður Jón Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, gerði ráð fyrir.

Það gerðist síðan að þegar hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps fjallaði um málið, þ.e. um umsókn um að setja framkvæmdina inn á aðalskipulag þar sem miðað yrði við að lónhæðin næði 566 metrum yfir sjávarmáli að sumarlagi og 567,5 yfir sjávarmáli að vetrarlagi, var það heimilað. Sú tilhögun var kynnt og auglýst í janúar 2005, bæði af hreppsnefndinni og samvinnunefnd miðhálendisins. Hreppsnefndinni bárust gríðarlega margar athugasemdir við þennan gjörning, 98 athugasemdir sem vörðuðu Norðlingaölduveitu. Þær voru undirritaðar af 275 einstaklingum. Samvinnunefndin fékk athugasemdir frá 146 aðilum sem allar, utan ein, vörðuðu Norðlingaölduveitu. Ég leyfi mér að fullyrða að þess verði langt að bíða að annar eins fjöldi athugasemda komi við skipulagstillögur á Íslandi. Í öllu falli er það von mín að ekki eigi eftir að verða svo háværar deilur um skipulagstillögur í náinni framtíð, miðað við það hvernig vindarnir virðast vera að snúast þessa dagana.

Samvinnunefnd miðhálendisins ákvað að taka tillit til hinnar miklu andstöðu með því að breyta umfangi Norðlingaölduveitu á endanlegri skipulagstillögu auk þess sem ljóst var orðið að ekki var lengur meiri hluti fyrir því í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps að heimila Norðlingaölduveitu. Hinn 12. ágúst 2005 samþykkti samvinnunefnd miðhálendis tillögu að breytingu á staðfestu svæðisskipulagi miðhálendis Íslands 2015 fyrir svæðið sunnan Hofsjökuls. Þar voru tekin út set- og veitulón sem vakið höfðu talsverðar deilur. Þau höfðu verið skrifuð inn sem mótvægisaðgerðir í úrskurði setts umhverfisráðherra ásamt með mannvirkjum tengdum þeim. Þannig var skipulagstillagan send umhverfisráðherra til staðfestingar. Þannig ákvað hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps, á fundi sínum í september 2005, að auglýsa aðalskipulag sveitarfélagsins.

Skipulagsstofnun fjallaði um tillögu samvinnunefndarinnar og taldi að með breytingunni á útfærslu Norðlingaölduveitu hefði samvinnunefndin breytt auglýstri tillögu í grundvallaratriðum og því bæri að auglýsa tillöguna á nýjan leik. Einnig taldi Skipulagsstofnun að þær breytingar sem nefndin gerði á tillögunni stönguðust á við lög um raforkuver. Þar sem útfærsla framkvæmdarinnar hefði verið lögfest með úrskurði setts umhverfisráðherra. 29. desember 2005 staðfesti umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, svo skipulagstillögu samvinnunefndarinnar að öðru leyti en því að hún synjaði þeim hluta tillögunnar staðfestingar sem varðaði breytingar á Norðlingaölduveitu. Þannig stendur málið nú og má því segja að skipulag svæðisins sunnan Hofsjökuls sé á byrjunarreit. Því telja flytjendur þessarar tillögu að nú sé lag og logn í kringum þessar hugmyndir. Nú hefur gefist tækifæri til að vernda til framtíðar dýrmætustu gróðurvin á hálendi Íslands, Þjórsárver.

Þótt ég treysti aldrei neinu sem sagt er af ráðamönnum varðandi náttúruvernd fyrr en allt er komið í höfn tel ég engu að síður að það geti verið von um Þjórsárverin. Svo virðist sem Landsvirkjun sé ekki haldin jafnsterkri þráhyggju og verið hefur undanfarin ár, að Norðlingaölduveita sé algjörlega lífsnauðsynleg í þeirri orkuöflun sem Landsvirkjun hyggst ástunda fyrir væntanlegar álversframkvæmdir.

Varðandi væntanlegar álversframkvæmdir vil ég segja að lokum, virðulegi forseti, að það var hlálegt að hafa þurft að horfa upp á og hlusta á formann Framsóknarflokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, ræða um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem heyri nú sögunni til enda séu allar hugmyndir um álver og raforkusölu komnar út á almennan markað. Hverjir skyldu hafa stefnt orkusölu til stóriðju þangað? Jú, það hafa ríkisstjórnarflokkarnir gert með dyggum stuðningi á Alþingi. Það hefur orsakað það að nú standa í iðnaðarráðuneytinu yfir 20 umsóknir um rannsóknarleyfi vegna jarðhita og vatnsafls á einum 16 svæðum á landinu. Ég tel eðlilegt, virðulegi forseti, að segja þingheimi hvaða svæði það eru sem nú eru undir hjá hinum markaðsvæddu raforkufyrirtækjum ef fram heldur sem horfir. Svæði sem sótt er um vegna jarðhita eru eftirfarandi:

Brennisteinsfjöll, Fremri-Námar, Gjástykki, Grændalur, Kelduhverfi, Kerlingarfjöll, Krýsuvík og Torfajökulssvæðið. Vegna vatnsafls er sótt um rannsóknir í Skjálfandafljóti, Hólmsá í Skaftártungum, Tungnaá ofan Sigöldustöðvar, Þjórsá neðan Búrfells, Skaftá, sem sé efri hluta Skaftár, austari og vestari Jökulsám í Skagafirði og Hagavatni. Þetta eru umsóknir frá hinum markaðsvæddu raforkufyrirtækjum til hæstv. iðnaðarráðherra, iðnaðarráðuneytisins, vegna þess að afla þarf orku til stóriðju sem stjórnvöld buðu inn á gafl með frægum bæklingi sem sendur var út um heimsbyggð alla til fjárfesta sem vildu fjárfesta í þungaiðnaði eða orkusölu til þungaiðnaðar árið 1995. Forsíðan á þeim bæklingi bar yfirskriftina: „Lowest energy prices.“ Þarna var Ísland sett á útsölu fyrir tilstuðlan stjórnarflokkanna á Alþingi. Við þá stefnu hefur verið haldið fram á þennan dag og við erum enn að súpa seyðið af henni.

Ef þessi ríkisstjórn leyfir sér að kippa a.m.k. Þjórsárverum endanlega undan hrammi stóriðjufyrirtækjanna, þá má svo sem þakka þeim fyrir það. Auðvitað viljum við, sem höfum barist fyrir náttúruvernd árum saman, miklu meira, en lágmarkið er að friðlandið verði stækkað. Þjórsárverunum verði bjargað undan hrammi orkugræðginnar og farið verði í það af alvöru að koma Þjórsárverafriðlandi á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Læt ég lokið máli mínu að sinni, frú forseti.