133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:45]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo að hlutum sé til haga haldið þá gat hv. þingmaður um það að Katrín Fjeldsted, hv. fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði flutt sambærilega tillögu og komið fyrst með tillögu af þessu tagi fyrir Alþingi. Það er ekki alveg kórrétt. Katrín Fjeldsted flutti tillögu til þingsályktunar um friðland í Þjórsárverum á 131. löggjafarþingi þar sem hún lagði til að Alþingi skoraði á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að friðlandið í Þjórsárverum yrði stækkað og að Þjórsárver yrðu sett inn á heimsminjaskrá UNESCO.

Á sama þingi lá fyrir í fjórða sinn tillaga frá þeirri sem hér stendur um þann þátt málsins sem lýtur að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Sú tillaga var fyrst lögð fram á 127. löggjafarþingi.

Katrín gerði hins vegar eitt. Hún átti frumkvæðið að því að bæta inn í tillöguna því sem lýtur að heimsminjaskrá UNESCO. Það á hún og síðan tókum við sameiginlegu flutningsmennirnir sem fluttum tillöguna á síðasta ári hennar línu upp í okkar tillögu þannig að samsuðuna getum við öll þakkað okkur.

En það er rétt, við höfum átt dyggan stuðningsmann í Katrínu Fjeldsted, við sem höfum viljað að friðlandið yrði stækkað og að Þjórsárverum yrði komið á heimsminjaskrá. Það er því gott að hennar skuli getið í þessari umræðu.