133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:53]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir ágæta umræðu um þessa tillögu til þingsályktunar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Hv. 1. flutningsmaður tillögunnar, Kolbrún Halldórsdóttir, gerði grein fyrir því að þetta væri eitt af þremur málum sem stjórnarandstöðuflokkarnir hér á þingi væru sammála um að beita sér fyrir.

En eins og síðan hefur komið fram í umræðunni er stuðningsmenn um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum ekki einungis að finna innan stjórnarandstöðunnar heldur í öllum stjórnmálaflokkum hér á þingi. Hér hafa verið tilnefndir þingmenn eins og Katrín Fjeldsted sem sat á þingi fram að síðustu kosningum og var stuðningsmaður þessa máls. Eins hefur fráfarandi umhverfisráðherra, hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, lýst yfir stuðningi við þessa tillögu og það hef ég jafnframt gert eftir að ég tók við því ráðuneyti.

Stuðningurinn er því mjög víðtækur. Ég tek undir orð þingmanna sem hér hafa talað um að sá stuðningur fer vaxandi. Í öllum flokkum á Alþingi er að finna stuðningsmenn við stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

Eins og hv. 1. flutningsmaður, Kolbrún Halldórsdóttir, gerði grein fyrir í sinni framsögu — þar sem hún rakti stöðuna nú og ferlið allt frá 2002 fram til dagsins í dag — er málið nú á byrjunarreit. Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í kjölfar dóms Hæstaréttar nú á dögunum, sem lagði fyrir Landsvirkjun að málið þyrfti að hluta til að fara í umhverfismat upp á nýtt — það er dómur sem Landsvirkjun hefur ekki áfrýjað — er málið, eins og hv. þingmaður sagði, á byrjunarreit. Skipulagsvaldið er hjá sveitarstjórnarmönnum. Að því skoðuðu og þeirri stöðu sem málið var í þá ákvað ég nú á dögunum, eftir að hafa fundað með sveitarstjórnarmönnum báðum megin við ána, að skipa í samráði við þá starfshóp um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og breytingu á friðlýsingarskilmálum frá því sem þeir eru núna.

Það er staðan í málinu eins og hún er. Þegar verið er að tala um að stækka friðlandið er útgangspunkturinn í baráttunni um verndun Þjórsárveranna stuðningur við að Þjórsárverin njóti víðtækrar og markvissrar verndar svo hvorki raskist vistkerfi veranna né hin sérstæða landslagsheild sem þau mynda. Þetta hlýtur að vera útgangspunkturinn hjá þeim sem vilja færa friðlandið út og stækka það.

Hv. þm. Mörður Árnason, að mig minnir, hafði orð á því hér áðan að mörk friðlandsins séu dregin eins og landamæri einhvers staðar í Afríku — eða var það hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir? Þá bið ég hv. þm. Mörð Árnason velvirðingar á því (Gripið fram í.) — hefur það eftir Andra Snæ Magnasyni. Hvaðan sem það nú kemur er mjög óeðlilegt út frá þessum forsendum friðlandsins að vernda þessa heild, að það séu dregnar eins kantaðar línur og raun ber vitni á þessu korti.

Ég geri ráð fyrir að í vinnunni sem þessi starfshópur ræðst í verði það fyrst og fremst skoðað að halda Þjórsárverunum sem heild út frá þeirri forsendu að hvorki raskist vistkerfi veranna né hin sérstæða landslagsheild sem verin mynda. Ég geri ráð fyrir að það sé útgangspunkturinn.

Verndun Þjórsárveranna, eins og hv. þingmenn í umhverfisnefnd vita, var ekki í náttúruverndaráætlun sem Alþingi afgreiddi frá sér, en var meðal þeirra 77 hugmynda sem unnið var að í undirbúningi að henni — og var lagt fram í upphafi. Það liggur náttúrlega fyrir að aldrei hefur verið ráðist í friðlýsingu í bága við heimamenn neins staðar. Ég vænti góðs af samstarfi við heimamenn og að þeir skili innan skamms niðurstöðum sínum og hugmyndum um hvernig að stækkuninni verði staðið og skilmálunum breytt.