133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[17:59]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að þakka fyrir yfirlýsingu hæstv. umhverfisráðherra úr þessum ræðustóli þar sem hún tekur af öll tvímæli um vilja sinn hvað varðar stækkun friðlands í Þjórsárverum. Ég fagna því að starfshópur skuli vera farinn af stað. Ég treysti því að áfram verði unnið að málinu í umhverfisráðuneytinu svo það fái framgang og því ljúki með farsælli stækkun friðlandsins.

En hvað það varðar að koma því á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna þætti mér fengur að því að fá hæstv. umhverfisráðherra til að segja nokkur orð um hvort slíkt sé í undirbúningi og hvort hún muni beita sér fyrir því að af slíku geti orðið.