133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:04]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að fagna því samstarfi sem hæstv. ráðherra boðar við heimamenn og starfshópi sem skipaður hefur verið um friðun Þjórsárvera. Í því ljósi vildi ég nota tækifærið til að lýsa harmi mínum yfir því að hægri grænir í Sjálfstæðisflokknum hafi ekki tekið þátt í þessari umræðu og að úr þeim hægri græna flokki sé enginn flutningsmaður að þessari tillögu.

Virðulegur forseti, sem tilheyrir þeirra hópi, hef ég lesið um, kemur kannski inn í þessa umræðu síðar. En það væri fróðlegt að heyra sjónarmið sjálfstæðismanna og vitorð hinna nýhægrigrænu manna þar í þessu grundvallarmáli í íslenskri náttúruvernd, sem er friðun Þjórsárvera.

En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að mjög víðtæk samstaða hefur náðst um það og skilningur á mikilvægi þess að friða Þjórsárver, hvort ekki sé ástæða til að taka upp og endurskoða fyrri áform um rennslisvirkjanirnar þrjár í neðri hluta Þjórsár, hvort það sé þess virði að fórna því fallega landi sem þar fer undir lón, með gjörbreyttri ásýnd sem þær virkjanir mundu valda á hreppunum sem það færi í gegnum, í brunaútsölu á raforkuverði til stóriðju. Þarf ekki að endurskoða þau áform og þá ákvörðun?

Ég held að sýnt hafi verið ákveðið glapræði á sínum tíma þegar það mál var metið og kannað og nauðsynlegt sé að endurskoða áform um þær virkjanir og skoða út frá samhengi þeirra hluta sem við ræðum um í náttúruvernd á Íslandi í dag.