133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:06]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum hér um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spyr um afstöðu mína til virkjana í neðri hluta Þjórsár, þ.e. Þjórsár í byggð. Ég skil hv. þingmann þannig að hann sé andvígur þeim virkjunum sem þar eru komnar á framkvæmdastig.

Í allri þessari umræðu um virkjanir, hvort sem um er að ræða vatnsaflsvirkjanir eða jarðvarmavirkjanir, þá hafa menn stundað það að slá fram tilteknum stöðum og svæðum og kalla eftir afstöðu manna til þess, hvort þeir vilji virkja eða vilji ekki virkja. Ég ætla ekki, í umræðu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum, að taka beina afstöðu með eða á móti viðkomandi virkjunum. En eins og kom fram í umræðunni fyrr í dag þá er þetta komið á framkvæmdastig, að loknu öllu skipulags- og undirbúningsferli. Ég ætla að það sé með vilja heimamanna, skipulagið sem þessar virkjanir falla undir. Ég hef ekki heyrt að við það sé mikil andstaða eða nokkur andstaða við að fylgja þeim framkvæmdum eftir, a.m.k. ekki þar sem ég hef kynnt mér málið. Þetta hefur til þessa ekki verið eitt af þeim svæðum sem hefur verið ágreiningur um í hinni almennu umræðu. Ég held, án þess að ég ætli að gera lítið úr þessu eða leggja nokkurt mat á það, að almennt sé meiri stuðningur við að náttúruverndargildi margra annarra svæða sé meira.

Herra forseti. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þessa í umræðu um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.