133. löggjafarþing — 8. fundur,  9. okt. 2006.

stækkun friðlandsins í Þjórsárverum.

4. mál
[18:19]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þakkir þingmanna fyrir þessa umræðu. Ég vil meina að dropinn holi steininn í þessum efnum. Það kom fram fyrr í umræðunni að ég flutti þessa tillögu fyrst á 127. löggjafarþingi, sem mun hafa verið haldið hér árið 2001–2002. Þar var tillagan á þingskjali 8 og síðan höfum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flutt hana árvisst og ég vona sannarlega að þetta sé í síðasta sinn sem ég tala fyrir hana hér. Verði það svo er það vegna þess að á þinginu næst víðtæk samstaða um að sú leið sem hér er lögð til verði farin.

Ég tel mig hafa í höndunum vonir um að slíkt geti orðið hvort sem það verður þessi tillaga sem kemur aftur til afgreiðslu á þinginu eða það verður með öðrum hætti, að stækkun friðlandsins í Þjórsárverum eigi sér stað, þá get ég látið mér það í léttu rúmi liggja, tæknilega séð. Meginmarkmiðið er að staðfesta þarf þann vilja þjóðarinnar að Þjórsárver fái þann sess sem þeim ber og að náttúruvernd verði þá kannski líka hafin til vegs og virðingar á ný á Íslandi og hún eigi þá von um bjartari tíma fram undan.

Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson minntist á baráttufólkið í Gnúpverjahreppi og staðfestu þess í þessum málum. Ég vil taka undir það sem hann sagði. Það er á engan hallað í dag að segja að þar hafi staðið framarlega Sigþrúður Jónsdóttir frá Eystra-Geldingarholti. Hún hefur farið fyrir áhugahópi um verndun Þjórsárveranna og hefur staðið sig með stakri prýði þar. Það verður samt að geta annars manns, úr því að Gnúpverjar eru nefndir, en það er fyrrum oddviti Gnúpverja, Már Haraldsson. Már Haraldsson starfaði í Þjórsárveranefnd og barðist ötullega fyrir stækkun friðlandsins og fyrir vernd Þjórsárveranna. Hann lést langt fyrir aldur fram í apríl 2004 og af því að ég held á Draumalandinu hans Andra Snæs Magnasonar þá segir um Má Haraldsson í bókinni, þar sem vitnað er í andlátsfrétt sem birtist í Morgunblaðinu þegar hann var látinn aðeins fimmtugur að aldri eftir erfiða baráttu við krabbamein, með leyfi forseta:

„Hann leiddi meiri hluta hreppsnefndar á umbrotatímum þegar áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu voru til umfjöllunar. Barðist Már gegn þeim framkvæmdum, alveg fram á síðasta dag.“

Um það get ég vitnað, það gerði hann og var einn ötulasti baráttumaður sem ég hef á ævi minni hitt. Blessuð sé minning hans.

Það er gaman í lok þessarar umræðu að segja frá því að ég var stödd á fjölmennum fundi í Árnesi sem haldinn var til verndar verunum 24. maí 2001. Þetta var einn af þessum skemmtilegu gamaldags sveitarfundum, húsið var alveg sneisafullt af fólki og afar eindreginn vilji fundarins var innsiglaður í yfirlýsingu eða ályktun sem birtist í greinargerð þeirrar tillögu sem ég flutti hér fyrst og nefndi áðan, árið 2001.

En það er annar fundur sem haldinn var í þessu sama Árnesi 17. mars 1972. Sá fundur mun hafa verið afar sögulegur. Hann sendi frá sér ályktun sem ég held að sé alveg við hæfi í lok umræðunnar að lesa og láta þá verða lokaorð í þessari umræðu.

Ályktunin var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Fjölmennur sveitarfundur Gnúpverja, haldinn að tilhlutan landgræðslunefndar Ungmennafélags Gnúpverja í Félagsheimilinu Árnesi 17. mars 1972, lýsir yfir eindreginni andstöðu við rafvæðingaráætlanir þar sem gert er ráð fyrir myndun uppistöðulóns í Þjórsárverum. Fundurinn vekur athygli á nokkrum mikilvægum atriðum varðandi Þjórsárver:

a. Þjórsárver eru geysistór og einstæð vin á miðhálendi Íslands. Þau eru umlukin auðnum á alla vegu og eiga ekki sinn líka hvaða varðar fjölbreyttan gróður og fuglalíf.

b. Gróðureyðing í aldaraðir er alvarlegasta vandamál náttúruverndar á Íslandi. Verði Þjórsárver sett undir vatn er gróðri og gróðurfari landsins unnið óbætanlegt tjón. Auk þess eru miklar líkur á því að mismunandi hæð yfirborðsvatnsins í fyrirhuguðu lóni í Þjórsárverum orsaki uppblástur.

c. Þjórsárver eru verðmætt beitiland.

d. Talið er að ¾ hlutar alls heiðargæsastofnsins í heiminum verpi í Þjórsárverum. Margar fuglategundir í heiminum eiga nú á hættu að verða útrýmt. Röskun í Þjórsárverum stofnar varplöndum heiðargæsarinnar í hættu.

Af ofangreindum ástæðum andmælir fundurinn hvers konar röskun á náttúru Þjórsárvera og skorar á almenning í landinu að sameinast um að varðveita þessa einstæðu perlu íslenskra öræfa.“

Virðulegi forseti. Þessi fundarsamþykkt er frá árinu 1972. Það eru liðin meira en 30 ár síðan. Ég vona að þeir sem sátu þann fund, lífs eða liðnir, handan grafar eða hér meðal okkar, fagni því sem hér er að gerast og ég leyfi mér að vona að eigi eftir að halda áfram og verða til lykta leitt í vetur, þ.e. að Þjórsárverin verði friðuð til langrar framtíðar, friðlandið stækkað og hin landfræðilegu mörk látin ráða. Með þá góðu von í brjósti læt ég máli mínu lokið og þakka umræðuna.