133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn.

[13:48]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum sem er í dag, 10. október. Við höfum unnið að mörgum góðum málum í fjárlaganefnd undanfarin ár og höfum lagt áherslu á að leggja frjálsum félagasamtökum til sem eru að vinna í geðheilbrigðismálum.

Það er afskaplega mikilvægt að úrræði séu fjölbreytt og bæti stöðu geðfatlaðra og auki þjónustu. Það var mjög ánægjulegt að fylgjast með því gær, eins og hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir greindi frá nú áðan, auknum lífsgæðum og aukinni atvinnuþátttöku.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat áðan um klúbbinn Geysi. Á Selfossi hefur verið stofnaður klúbburinn Strókur sem vinnur í sama anda og klúbburinn Geysir. Það er mikilvægt að fólk sé að vinna sjálft í sínum málum því eins og sagt var hér áðan: Þetta er ekki lífstíðardómur, þetta er sjúkdómur sem hægt er að bæta. Ég vil óska öllum þeim til hamingju með daginn sem hafa sprottið upp úr grasrótinni, farið að vinna í þessum málum og fengið okkur þingmenn og alla landsmenn til að hlusta, og komu okkur upp úr þeim dimma dal sem þessi mál voru í þegar ekki mátti ræða þau, þegar þau voru í felum. Nú eru þau uppi á yfirborðinu og allir taka þátt í að gera lífið betra. Við skulum heita því að halda því verki áfram.