133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:13]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að upplýsa hv. þingmann um að ég get ekki greint nákvæmlega frá þeim landkynningarátökum sem ferðaþjónustan er með á prjónunum. En ég geri ráð fyrir að eins og undanfarin ár sé þar um að ræða verðug og skynsamleg verkefni enda hefur núverandi ríkisstjórn aukið fjármagn til landkynningarmála verulega á undanförnum árum og mér sýnist að þeim peningum hafi verið afar vel varið ef miða má við það hvernig ferðaþjónustan stendur í dag og hvernig fjölgun ferðamanna hefur verið. Ég held að hv. þingmaður gæti kannski fengið nánari útskýringar á því hvað stendur til á næstunni og þá vona ég að það skýrist fyrir honum.

Svo held ég að ég verði að upplýsa hv. þingmann um að ég á fjölda binda með myndum af aðskiljanlegum dýrategundum, bæði spendýrum, fuglum og fiskum og ef hann hefur áhuga á því að koma og skoða bindasafnið hjá mér einhvern tíma getum við örugglega fundið okkur tíma til þess.