133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[14:16]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held það sé alveg óhætt að segja að ummæli hv. þingmanns um tökin á ríkisfjármálunum séu mjög ýkt og tilvitnanir hans í skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjölda liða sem fara fram úr séu heldur ekki alveg nákvæmlega þær tölur sem gagnast okkur best í umræðunni. Við vitum að það eru liðir í fjárlögunum sem eru gerðir upp gegnum reiknilíkön. Þó ákveðnir fjármunir séu áætlaðir á þessa liði í fjárlögunum er þegar upp er staðið ekki eytt eins miklum peningum í þá vegna þess að reiknilíkönin gera ekki ráð fyrir því að umsvifin réttlæti slíkt. Það kemur auðvitað fyrir líka að starfsemin er aukin og þá þarf að bregðast við því þegar reiknilíkönin gera ráð fyrir því að þörf sé á meiri peningum vegna þess að meiri þjónusta er veitt og þá er það leiðrétt í fjáraukalögunum.

Það er hins vegar rétt að það eru of margir liðir sem ekki er hægt að útskýra á þennan hátt og þar er um að ræða hluti sem þarf að bregðast við. Ég get ekki séð að eitthvað meira sé um það í þessu frumvarpi en í öðrum þó kannski sé erfitt að fullyrða að það sé minna um það en áður. En við höfum svo sannarlega brugðist við því sem fram kom hjá Ríkisendurskoðun í sumar. Við verðum að vinna að því innan Stjórnarráðsins og með stofnunum þeim sem undir það heyra og ég vonast til þess að við sjáum árangur af því áður en varir. Ákveðinn ávani hefur liðist í kerfinu þar sem menn hafa komist upp með að fara fram úr fjárlögum. Það á ekki að vera þannig og við erum að vinna að því að koma í veg fyrir að það gerist í framtíðinni.