133. löggjafarþing — 9. fundur,  10. okt. 2006.

fjáraukalög 2006.

47. mál
[15:20]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns Birkis Jóns Jónssonar bar þess glöggt merki að við værum að sigla inn í kosningabaráttu. En hún var að mörgu leyti alveg ævintýraleg. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að koma inn á.

Hv. þingmaður kvartaði undan því að stjórnarandstaðan hefði ekki komið og snúist á sveif með ríkisstjórninni í því að standa vörð um stöðugleikann.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fara yfir þennan stöðugleika sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson kallar svo. Undanfarin rúmlega tvö ár hefur verðbólga á Íslandi sveiflast upp og niður og slegið upp í hátt að 10% og verið fyrir ofan verðbólgumarkmið Seðlabankans. Við vitum öll hvernig þetta snertir heimilin á landinu út af fasteignalánunum í gegnum verðtrygginguna. Kallar hv. þingmaður þetta stöðugleika?

Við vitum öll hvernig viðskiptahallinn hefur verið hér á undanförnum árum og í ár erum við líklega að slá heimsmet í viðskiptahalla. Við erum alla vega efst meðal OECD-ríkjanna. Kallar hv. þingmaður þetta stöðugleika?

Frú forseti. Á undanförnum árum hefur krónan sveiflast um allt að 40% með þeim afleiðingum að það hefur komið verulega illa við útflutninginn í landinu. Frú forseti. Kallar hv. þingmaður þetta stöðugleika? Þetta er það efnahagsumhverfi sem þessi ríkisstjórn hefur skapað. Þó hv. þingmaður kalli þetta stöðugleika og kvarti yfir að stjórnarandstaðan skuli ekki vilja snúast á sveif með honum og ríkisstjórninni í að viðhalda þessum stöðugleika þá þarf hann ekki að undra það vegna þess að þetta er ekki það efnahagsumhverfi sem við kjósum. Þetta er ekki það efnahagsumhverfi sem væri hér ef jafnaðarmenn væru hér í stjórn.

Frú forseti. Ef þetta er stöðugleiki hjá hv. ríkisstjórn þá er alveg klárt að stjórnarandstaðan vill ekki taka þátt í (Forseti hringir.) að standa vörð um slíkan stöðugleika.